Ástæðan er sú að sjónvarpsstöðin Mango TV huldi og máði út hvers kyns tákn, húðflúr eða fána sem vísuðu til hinsegin samfélagins. Má þar meðal annars nefna hinn táknræna regnbogafána, eins og myndin hér að ofan ber með sér.
Þá fór Mango TV frekar í auglýsingahlé en að sýna framlög Írlands og Albaníu. Írska sviðsetningin þótti of hýr og albanski söngvarinn var með of mörg húðflúr að mati þeirra kínversku. Framlögin tvö má sjá hér að neðan.
„Það er því með trega sem við riftum samningi okkar við sjónvarpsstöðina umsvifalaust og er henni því óheimilt að sýna frá seinna undanúrslita- og úrslitakvöldinu,“ segir í yfirlýsingu frá Sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva.
Fjölmargir kínverskir netverjar dældu út skjáskotum úr útsendingu Mango TV þar sem glögglega mátti sjá hvernig búið var að fjarlægja hinsegin vísanir. Einhverjir sögðu þetta stórt skref aftur á bak í baráttu kínversks hinsegin fólks og aðrir kölluðu eftir því að Kínverjar myndu sniðganga Mango TV.
Keppandi Írlands, Ryan O'Shaughnessy, segist í samtali við breska ríkisútvarpið fagna ákvörðun sambandsins.
„Frá upphafi höfum við sagt að ást sé ást - sama hvort það er á milli tveggja stráka, tveggja stelpna eða stelpu og stráks. Þannig að mér finnst þetta vera mikilvæg ákvörðun.“