Víetnam, Víetnam Þorvaldur Gylfason skrifar 18. janúar 2018 07:00 Styrjöldin í Víetnam, öðru nafni síðari styrjöldin í Indókína, stóð í tæp 20 ár, frá 1955 til 1975, fyrsta stríðið þar sem Bandaríkin fóru halloka. Áður höfðu Frakkar hrökklazt frá Víetnam 1954 eftir átta ára stríð frá 1946.Okkar stríð Tölurnar um mannfall eru á reiki en talið er nú að stríðið 1955-1975 hafi kostað allt að 3,6 milljónir mannslífa, þ.m.t. 2 milljónir óbreyttra víetnamskra borgara auk 1,1 milljónar norður-víetnamskra hermanna, 200.000 til 250.000 suður-víetnamskra hermanna og 58.000 bandarískra hermanna. Þetta var okkar stríð, minnar kynslóðar. Jafnaldrar okkar voru sendir út á vígvöllinn. Sumir telja að Bandaríkjastjórn hafi gert sömu skyssu í Víetnam og á Kúbu með því að skoða þjóðfrelsisfylkingu Norður-Víetnams sem kommúnistaflokk fyrst og fremst og flæma Ho Chi Min og félaga hans þannig upp í fangið á kommúnistum líkt og þeir höfðu áður flæmt Fídel Kastró á Kúbu upp í fangið á Rússum. Hvað sem því líður kallaði stríðið miklar hörmungar yfir bæði löndin, Víetnam og Bandaríkin, einkum Víetnam eins og tölur um mannfallið vitna um, og einnig grannlöndin Laos og Kampútseu sem drógust inn í átökin. Síðan stríðinu lauk 1975 hefur Víetnam náð sér á strik. Eftir stríðið flúðu 800.000 Víetnamar landið á lekum bátum frekar en að búa þar áfram undir stjórn kommúnista. Nokkrar fjölskyldur fluttust til Íslands. Stríðið er þó fjarlæg fortíð í augum flestra núlifandi Víetnama enda er miklu meira en helmingur þeirra fæddur eftir 1975. Víetnamar stóðu jafnfætis Kínverjum í efnahagslegu tilliti 1990. Bæði löndin hófu gagngerar efnahagsumbætur um líkt leyti, Kínverjar 1978 og Víetnamar 1979. Kínverjar hafa náð meiri árangri en Víetnamar og eru nú í efnahagslegu tilliti um það bil að fara fram úr Taílendingum, ríkustu þjóðinni í Indókína. Víetnamar standa enn langt að baki bæði Kínverjum og Taílendingum mælt í kaupmætti þjóðartekna á mann sem er algengasti þröngi mælikvarðinn á lífskjör. Viðtækari mælikvarðar eins og lífskjaravísitala Sameinuðu þjóðanna sem tekur mið af menntun og heilbrigði auk tekna segir sömu sögu um þessi þrjú lönd. Víetnamar búa enn við alræði kommúnista líkt og Kínverjar og sér ekki enn fyrir endann á því. Taílendingar búa stundum við herstjórn, stundum ekki. Víetnamstríðið vakti harða andstöðu í Bandaríkjunum og um allan heim. Óeirðir brutust út. Fjölskyldur sundruðust. Sumir flúðu land frekar en að gegna herskyldu. Kannski hefur ekkert gert meira til að grafa undan sjálfstrausti Bandaríkjanna og áliti þeirra um heiminn en stríðið í Víetnam. Stríðið hefur æ síðan verið hálfgert feimnismál vestra líkt og heimilisofbeldi er iðulega feimnismál.Nýjar upplýsingar Nú loksins er hægt að tala opinskátt um stríðið án þess að allir stökkvi niður í gamlar skotgrafir, segir kvikmyndagerðarmaðurinn Ken Burns sem hefur ásamt Lynn Novick gert mikla sjónvarpsþáttaröð um stríðið. Hún var frumsýnd á PBS-sjónvarpsstöðinni í haust. Umfjöllunin er frumleg. Nú fá bandarískir áhorfendur í fyrsta sinn að kynnast viðhorfum Norður-Víetnama til stríðsins milliliðalaust í stað þess einhliða fréttaflutnings sem þeim hefur staðið til boða hingað til. Myndefnið er ólíkt því sem áður hefur sézt. Margt nýtt kemur fram, t.d. það að forsetar Bandaríkjanna lugu að þjóðinni hver fram af öðrum. Þeir sögðu í sjónvarpi að sigur væri í sjónmáli en þeir játuðu í símtölum sem nú hafa verið birt að stríðið væri óvinnandi, Norður-Víetnamar myndu aldrei gefast upp. Andstæðingar stríðsins standa með pálmann í höndunum. Þeir höfðu á réttu að standa frá byrjun, það blasir nú við. Dramað var ekki bundið við vígvellina. Johnson forseti stóð Richard Nixon sem þá var forsetaframbjóðandi repúblikana, þetta var 1968, að því að reyna að spilla friðarsamningum í París. Johnson hefði getað dregið Nixon fyrir dóm fyrir meint landráð, en hann hvarf frá því þar eð sönnunarinnar fyrir sekt Nixons hafði verið aflað með ólöglegri símahlerun sem Johnson vildi halda leyndri. Þetta var eins og bergmál frá fyrri tíð. Aldarþriðjungi áður hafði Roosevelt forseti stillt sig um að draga Prescott Bush, ættarhöfuð Bush-fjölskyldunnar, fyrir dóm ásamt öðrum fyrir meint landráð (valdarán). Roosevelt taldi mikilvægara að láta sem ekkert væri til að spilla ekki fyrir viðreisnaráætlun ríkisstjórnar hans í kreppunni. Margt annað hefur komið á daginn. Bandarísku hermennirnir í Víetnam voru sumir kærulausir, kannski vegna þess að þeir höfðu ekki mikla trú á málstaðnum. Þeir skildu iðulega eftir sig slóð snjóhvítra sígarettustubba sem Norður-Víetnamar áttu auðvelt með að rekja. Bandarísku rifflarnir stóð oft á sér, en það gerðu rússnesku Kalashnikov-rifflarnir í höndum Norður-Víetnama sjaldan. Lofthernaður Bandaríkjamanna náði ekki að jafna metin. Þessi saga vitnar m.a. um mikilvægi frjáls aðgangs að upplýsingum þótt um síðir sé. Frjáls aðgangur dugir þó skammt ef álitlegur fjöldi fólks vill ekki heyra sannleikann fyrr en eftir dúk og disk. Hér hafa blaðamenn og aðrir verk að vinna, einnig kvikmyndagerðarmenn eins og fyrr nefndur Ken Burns sem hefur gert margar merkar sögulegar heimildarmyndir. Upplýsingar eru einn hornsteinn frelsis og lýðræðis. „Lýðræði deyr í dimmu“ eru ný einkunnarorð Washington Post fyrir tilstilli blaðamannsins Bobs Woodward sem átti ásamt Carl Bernstein mikinn þátt í að fletta ofan af Nixon forseta fyrir bráðum hálfri öld. Höfundur er pistlahöfundur Fréttablaðsins. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birtist í Fréttablaðinu Þorvaldur Gylfason Mest lesið Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun
Styrjöldin í Víetnam, öðru nafni síðari styrjöldin í Indókína, stóð í tæp 20 ár, frá 1955 til 1975, fyrsta stríðið þar sem Bandaríkin fóru halloka. Áður höfðu Frakkar hrökklazt frá Víetnam 1954 eftir átta ára stríð frá 1946.Okkar stríð Tölurnar um mannfall eru á reiki en talið er nú að stríðið 1955-1975 hafi kostað allt að 3,6 milljónir mannslífa, þ.m.t. 2 milljónir óbreyttra víetnamskra borgara auk 1,1 milljónar norður-víetnamskra hermanna, 200.000 til 250.000 suður-víetnamskra hermanna og 58.000 bandarískra hermanna. Þetta var okkar stríð, minnar kynslóðar. Jafnaldrar okkar voru sendir út á vígvöllinn. Sumir telja að Bandaríkjastjórn hafi gert sömu skyssu í Víetnam og á Kúbu með því að skoða þjóðfrelsisfylkingu Norður-Víetnams sem kommúnistaflokk fyrst og fremst og flæma Ho Chi Min og félaga hans þannig upp í fangið á kommúnistum líkt og þeir höfðu áður flæmt Fídel Kastró á Kúbu upp í fangið á Rússum. Hvað sem því líður kallaði stríðið miklar hörmungar yfir bæði löndin, Víetnam og Bandaríkin, einkum Víetnam eins og tölur um mannfallið vitna um, og einnig grannlöndin Laos og Kampútseu sem drógust inn í átökin. Síðan stríðinu lauk 1975 hefur Víetnam náð sér á strik. Eftir stríðið flúðu 800.000 Víetnamar landið á lekum bátum frekar en að búa þar áfram undir stjórn kommúnista. Nokkrar fjölskyldur fluttust til Íslands. Stríðið er þó fjarlæg fortíð í augum flestra núlifandi Víetnama enda er miklu meira en helmingur þeirra fæddur eftir 1975. Víetnamar stóðu jafnfætis Kínverjum í efnahagslegu tilliti 1990. Bæði löndin hófu gagngerar efnahagsumbætur um líkt leyti, Kínverjar 1978 og Víetnamar 1979. Kínverjar hafa náð meiri árangri en Víetnamar og eru nú í efnahagslegu tilliti um það bil að fara fram úr Taílendingum, ríkustu þjóðinni í Indókína. Víetnamar standa enn langt að baki bæði Kínverjum og Taílendingum mælt í kaupmætti þjóðartekna á mann sem er algengasti þröngi mælikvarðinn á lífskjör. Viðtækari mælikvarðar eins og lífskjaravísitala Sameinuðu þjóðanna sem tekur mið af menntun og heilbrigði auk tekna segir sömu sögu um þessi þrjú lönd. Víetnamar búa enn við alræði kommúnista líkt og Kínverjar og sér ekki enn fyrir endann á því. Taílendingar búa stundum við herstjórn, stundum ekki. Víetnamstríðið vakti harða andstöðu í Bandaríkjunum og um allan heim. Óeirðir brutust út. Fjölskyldur sundruðust. Sumir flúðu land frekar en að gegna herskyldu. Kannski hefur ekkert gert meira til að grafa undan sjálfstrausti Bandaríkjanna og áliti þeirra um heiminn en stríðið í Víetnam. Stríðið hefur æ síðan verið hálfgert feimnismál vestra líkt og heimilisofbeldi er iðulega feimnismál.Nýjar upplýsingar Nú loksins er hægt að tala opinskátt um stríðið án þess að allir stökkvi niður í gamlar skotgrafir, segir kvikmyndagerðarmaðurinn Ken Burns sem hefur ásamt Lynn Novick gert mikla sjónvarpsþáttaröð um stríðið. Hún var frumsýnd á PBS-sjónvarpsstöðinni í haust. Umfjöllunin er frumleg. Nú fá bandarískir áhorfendur í fyrsta sinn að kynnast viðhorfum Norður-Víetnama til stríðsins milliliðalaust í stað þess einhliða fréttaflutnings sem þeim hefur staðið til boða hingað til. Myndefnið er ólíkt því sem áður hefur sézt. Margt nýtt kemur fram, t.d. það að forsetar Bandaríkjanna lugu að þjóðinni hver fram af öðrum. Þeir sögðu í sjónvarpi að sigur væri í sjónmáli en þeir játuðu í símtölum sem nú hafa verið birt að stríðið væri óvinnandi, Norður-Víetnamar myndu aldrei gefast upp. Andstæðingar stríðsins standa með pálmann í höndunum. Þeir höfðu á réttu að standa frá byrjun, það blasir nú við. Dramað var ekki bundið við vígvellina. Johnson forseti stóð Richard Nixon sem þá var forsetaframbjóðandi repúblikana, þetta var 1968, að því að reyna að spilla friðarsamningum í París. Johnson hefði getað dregið Nixon fyrir dóm fyrir meint landráð, en hann hvarf frá því þar eð sönnunarinnar fyrir sekt Nixons hafði verið aflað með ólöglegri símahlerun sem Johnson vildi halda leyndri. Þetta var eins og bergmál frá fyrri tíð. Aldarþriðjungi áður hafði Roosevelt forseti stillt sig um að draga Prescott Bush, ættarhöfuð Bush-fjölskyldunnar, fyrir dóm ásamt öðrum fyrir meint landráð (valdarán). Roosevelt taldi mikilvægara að láta sem ekkert væri til að spilla ekki fyrir viðreisnaráætlun ríkisstjórnar hans í kreppunni. Margt annað hefur komið á daginn. Bandarísku hermennirnir í Víetnam voru sumir kærulausir, kannski vegna þess að þeir höfðu ekki mikla trú á málstaðnum. Þeir skildu iðulega eftir sig slóð snjóhvítra sígarettustubba sem Norður-Víetnamar áttu auðvelt með að rekja. Bandarísku rifflarnir stóð oft á sér, en það gerðu rússnesku Kalashnikov-rifflarnir í höndum Norður-Víetnama sjaldan. Lofthernaður Bandaríkjamanna náði ekki að jafna metin. Þessi saga vitnar m.a. um mikilvægi frjáls aðgangs að upplýsingum þótt um síðir sé. Frjáls aðgangur dugir þó skammt ef álitlegur fjöldi fólks vill ekki heyra sannleikann fyrr en eftir dúk og disk. Hér hafa blaðamenn og aðrir verk að vinna, einnig kvikmyndagerðarmenn eins og fyrr nefndur Ken Burns sem hefur gert margar merkar sögulegar heimildarmyndir. Upplýsingar eru einn hornsteinn frelsis og lýðræðis. „Lýðræði deyr í dimmu“ eru ný einkunnarorð Washington Post fyrir tilstilli blaðamannsins Bobs Woodward sem átti ásamt Carl Bernstein mikinn þátt í að fletta ofan af Nixon forseta fyrir bráðum hálfri öld. Höfundur er pistlahöfundur Fréttablaðsins.