Helgi Valur er fæddur árið 1981 og á að baki yfir 300 leiki í atvinnumennsku erlendis. Hann var meðal annars á mála hjá Peterborough, AIK og Elfsborg. Hann á að baki 33 landsleiki fyrir Ísland.
Hann spilaði síðast í atvinnumennsku árið 2015 hjá AGF í Danmörku. Eftir að samningur hans rann út flutti hann til Portúgal og hefur búið þar síðan, en er nú á heimleið og samdi við uppeldisfélag sitt.
„Það er algjörlega frábært að það hafi komið upp sú staða að ég gæti fengið tækifæri til að koma heim í uppeldisklúbbinn minn. Mér finnst ég vera tilbúinn í að koma heim og taka slaginn í Pepsí deildinni. Ég hef haldið mér ágætlega við eftir að ég hætti að spila sem atvinnumaður og stefni á að vera kominn í topp form sem allra fyrst,“ sagði Helgi Valur í tilkynningunni frá Fylki.
Fylkir komst aftur upp í Pepsi deild karla síðasta haust eftir að hafa unnið Inkasso deildina. Liðið hefur keppni á nýju tímabili laugardaginn 28. apríl gegn Víkingi R.
Eftir tiltölulega langa fjarveru frá boltanum, get ég nú glaður sagt að ég muni spila með @fylkirmfl í Pepsí deildinni 2018. Það verður frábært að fara aftur í Orange (uppáhaldslit allra landsmanna)!
— Helgi V. Daníelsson (@HelgiDanielsson) January 15, 2018