Lífið

Er 27 ára, barnlaus og ætlar í ófrjósemisaðgerð

Guðný Hrönn skrifar
Áhugasamir geta fylgst með Tinnu í gegnum bloggið hennar, www.tinnaharalds.wordpress.com
Áhugasamir geta fylgst með Tinnu í gegnum bloggið hennar, www.tinnaharalds.wordpress.com vísir/vilhelm
„Það er frekar einföld ástæða, hún er bara sú að ég ætla ekki að eignast nein börn. Og þetta er einfaldasta leiðin til að koma í veg fyrir barneignir,“ segir Tinna Haraldsdóttir, 27 ára barnlaus kona, spurð út í af hverju hún ætli í ófrjósemis­aðgerð. Tinna hefur lengi vitað að hana langar ekki að eignast börn og síðar í þessum mánuði ætlar hún að gangast undir ófrjósemisaðgerð.

„Önnur ástæða er líka sú að mig langar ekki að vera á hormónagetnaðarvörn lengur, það er mjög dýrt, hefur aukaverkanir og ég fékk bara nóg af því.“

Tinna birti nýverið bloggfærslu á blogginu sínu þar sem hún sagði frá áætlun sinni. Aðspurð hvernig viðbrögð hún hafi fengið við bloggfærslunni segir hún: „Þau voru rosalega góð, miklu betri en ég átti von á.“ Tinna viðurkennir að hún hafi alveg eins búist við að fá neikvæð viðbrögð vegna þess að í gegnum tíðina hefur hún fengið misjöfn viðbrögð frá fólki þegar hún hefur greint frá því að hún ætli sér aldrei að eignast börn.

„Ég hef alltaf fengið þetta: „þú munt skipta um skoðun.“ Og fólk sem er eldra en ég og á börn er alveg visst um að ég muni sjá eftir þessu á meðan yngra fólk hefur oftast verið forvitið,“ segir Tinna sem er viss um að tíðarandinn í tengslum við barneignir sé að breytast smátt og smátt. „Núna, með auknu umtali um réttindi kvenna o.s.frv. þá er þetta vonandi að breytast. Konur hafa val og mega hafa þetta val.“

Glasafrjóvgun er möguleikiÓfrjósemisaðgerðir kvenna er ekki hægt að afturkalla en þær konur sem hafa gengist undir ófrjósemis­aðgerðir eiga þó möguleika á að eignast börn með því að fara í glasafrjóvgun. Þegar Tinna komst að því átti hún auðvelt með að taka endanlega ákvörðun. „Ég vissi þetta ekki áður en ég fór til læknis í nóvember. Núna veit ég að glasafrjóvgun er möguleiki og get sagt fólki það, fólki sem efast um að ég sé að taka rétta ákvörðun. Og ég veit alveg að glasafrjóvgun er kostnaðarsöm og allt það, en það er líka dýrt að vera á getnaðarvörnum í langan tíma,“ segir Tinna.

Tinna viðurkennir að læknarnir sem hún hefur rætt við um aðgerðina virðist ekki vera mjög hrifnir af því að ung og barnlaus kona sé að fara í þessa aðgerð. „Þeir geta ekki neitað konu sem vill fara í ófrjósemisaðgerð um hana svo lengi sem hún er orðin 25 ára, en mér finnst eins og að ef þeir gætu sagt nei þá myndu þeir gera það,“ segir hún og hlær. „Ég fæ alveg á tilfinninguna hver þeirra skoðun er.“

Tinna kveðst vera spennt fyrir að fara loksins í aðgerðina, eftir að hafa leitt hugann að þessum möguleika lengi.

„Ég er spennt, og sérstaklega eftir að hafa fengið þessi góðu viðbrögð við bloggfærslunni minni. Ég hlakka bara til að halda áfram með lífið eftir þetta.“

Tinna bendir að lokum áhugasömum á að hún muni halda áfram að fjalla um ferlið á blogginu sínu. „Í næstu viku ætla ég að reyna að birta bloggfærslu um samband mitt við börn. Ég var nefnilega mjög lengi hörð á því að ég þyldi ekki börn. En ég held að það hafi verið varnarviðbrögð hjá mér, að geta sagst þola ekki börn og að það væri ástæðan fyrir að ég vildi ekki eignast börn. Enn er ég að læra að mér má alveg líka vel við börn án þess að vilja eignast þau sjálf. Svo ætla ég að blogga um aðgerðina sjálfa þegar ég er búin í henni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.