Bandaríska verslunarkeðjan Costco var með hæstu einkunn í Íslensku ánægjuvoginni þegar kom að eldsneytismarkaði en þá lægstu þegar kom að smásölumarkaði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu Stjórnvísi sem tilkynnti niðurstöður Íslensku ánægjuvogarinnar 2017 í morgun en þetta er nítjánda árið sem ánægja í garð íslenskra fyrirtækja er mæld með þessu hætti.
Að þessu sinni eru niðurstöður birtar fyrir 25 fyrirtæki í 8 atvinnugreinum og byggja niðurstöður á um 200-1.100 svörum viðskiptavina hvers fyrirtækis. Líkt og undanfarin fjögur ár er viðurkenning einungis veitt þeim fyrirtækjum sem eru með tölfræðilega marktækt hæstu einkunnina í viðkomandi atvinnugrein, þ.e. þar sem segja má með 95% vissu að viðskiptavinir fyrirtækisins með hæstu einkunnina séu að jafnaði ánægðari en viðskiptavinir fyrirtækisins með næsthæstu einkunnina.
Í ár var afhent viðurkenning á fimm mörkuðum. Á eldsneytismarkaði fékk bensínstöð Costco 86,5 stig af 100 mögulegum, Nova fékk 76,4 á farsímamarkaði, Vínbúðir ÁTVR fengu 74,1 stig á smásölumarkaði, BYKO fékk 68,9 á byggingavörumarkaði og Íslandsbanki fékk 66,5 stig á bankamarkaði. Costco eldsneyti var einnig með marktækt hæstu einkunn allra fyrirtækja sem mæld voru í Ánægjuvoginni þetta árið og eru viðskiptavinir eldsneytissölu Costco þar af leiðandi þeir ánægðustu á Íslandi. Hins vegar ber að taka fram að Costco er ekki með ánægðustu viðskiptavinina á smásölumarkaði en þar var Costco með lægstu einkunnina eða 59,1 stig.
Efstu fyrirtækjum á mörkuðum þar sem ekki var marktækur munur á efsta og næstefsta sæti voru ekki veittar viðurkenningar en hins vegar var fulltrúum þessara fyrirtækja færður blómvöndur í viðurkenningarskyni. Þeir markaðir þar sem ekki var marktækur munur á milli hæstu og næsthæstu einkunnar voru tryggingafélög, raforkusölur og matvörumarkaður.
Íslenska ánægjuvogin er í eigu Stjórnvísi og Samtaka iðnaðarins og sá Zenter rannsóknir um framkvæmd á Íslensku ánægjuvoginni.