Veiði

Flugurnar sem allir vilja eiga

Karl Lúðvíksson skrifar
Silfur Metalica frá Nils Folmer en þessi gæti orðið leynivopnið sumarið 2018 ef hún verður fáanleg í búðum fyrir tímabilið.
Silfur Metalica frá Nils Folmer en þessi gæti orðið leynivopnið sumarið 2018 ef hún verður fáanleg í búðum fyrir tímabilið. Mynd: Nils Folmer
Það er gaman að kíkja í veiðibækurnar í veiðihúsunum þegar mætt er í veiði og sjá hvaða flugur hafa verið að gefa dagana á undan.

Þetta er vani sem margir veiðimenn hafa og sjálfsagt mál að sjá hvað hefur verið að gefa en málið er að það þarf að taka þessu stundum með smá fyrirvara þar sem sumir veiðimenn hafa þann "leiðindarsið" að bóka laxana á allt aðrar flugur en þeir nota til að halda sínum leynivopnum leyndum.  Einn ágætur veiðimaður sem undirritaður hefur veitt með lengi bókar til dæmis aldrei á neitt nema Rauða eða Svarta Frances þó svo að hann beri fæð á fluguna.  Ekki ber að skilja sem svo að um óvandaðann mann sé að ræða, síður en svo því umgengni hans við ánna er til fyrirmyndar og er hann boðin og vís til að kenna þeim sem leita til hans með að lesa í vatnið og kasta betur.  En fyrr frýs í helvíti áður en hann segir þér til með fluguval og ástæðuna segir hann vera að eitthvað verður maður alltaf að læra sjálfur og prófa sig áfram með í veiðinni.  Þar spilar einmitt valið á flugunni nokkuð stórann þátt.

Þegar á bakkann er komið kíkir maður í boxin og auðvitað eru hinir reyndu veiðimann kannski fljótir að velja flugu enda þekkja þeir líklega aðstæður betur en sá sem er nýr í sportinu.  Það sem skiptir þó mestu máli í fluguvalinu er stærðin á flugunni, litur og það sem skiptir líklega allra mestu máli, hvernig flugan berst laxinum, þ.e.a.s. hvernig flugan veiðir þegar hún er komin í ánna.

Svo eru flugurnar sem verða tískufyrirbæri.  Sumar koma og fara, gleymast í svartholinu sem er veiðitaskan og verða ekki notaðar aftur.  Svo eru það flugurnar sem hafa verið notaðar frá árdögum stangveiðinnar og verða líklega notaðar um ókomna áratugi áfram oft þó í nýjum útgáfum.  Síðan eru það þær sem verða umvafnar slíku orðspori að allir gera sér ferðir í búð fyrir hvern veiðitúr til að eiga slíkt leynivopn og af þessum flugum má nefna t.d. Sunray, Metalicu, Zeldu og Frigga en klárlega eru þetta þær fjórar flugur sem flestir hafa verið að ná sér í og látið þær blanda geði við hinn ódauðlega Rauða Frances í boxinu.






×