Handbolti

Brjálaður Bjarni sendir Einari Jóns og dómurunum pillur

Stefán Árni Pálsson skrifar
Bjarni Fritzson er þjálfari ÍR.
Bjarni Fritzson er þjálfari ÍR. vísir
„Við förum mjög illa með færin okkar hérna undir lokin,“ segir Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, eftir tapið í kvöld.

ÍR tapaði fyrir Stjörnunni í Olís-deild karla og fór leikurinn 29-24. Stjarnan tryggði sér inn í úrslistakeppnina með sigrinum.

„Við gerum okkur seka um hræðilega tapaða bolta í kvöld og hjálpum þeim allt of mikið að ná upp þessu forskoti. Þessir feilar eru bara lélegir og óafsakanlegt hjá okkur.“

Bjarni segir að hans menn hafi einnig mátt skjóta töluvert betur á markið og ekki eins oft beint í markvörðinn.

„Mig langar að segja eitt. Einar Jónsson (þjálfari Stjörnunnar) tuðaði svo mikið hérna fyrstu fimmtán mínúturnar að ég hef aldrei séð annað eins. Ég held að hann hafi ekki einu sinni fengið gult spjald í leiknum. Hann tuðar stanslaust og dómararnir hættu bara að dæma eftir fimmtán mínútur. Allt í einu hættum við að fá víti og fengum bara ekki neitt. Þetta var glórulaust. Þeir dæmdu ekkert öðrumegin og bara hinumegin, af því að hann var búinn að tuða svo mikið. Þeir voru bara skíthræddir og þetta var bara algjör katastrófa. Þeir eiga stjórna leiknum og ekki að láta stjórna sér. Þetta er til skammar.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×