Lífið

Engin sjáanleg vandamál í símakosningunni

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Dagur Sigurðsson og Ari Ólafsson háðu einvígi á laugardaginn.
Dagur Sigurðsson og Ari Ólafsson háðu einvígi á laugardaginn. RÚV
Niðurstaða greiningar RÚV og Vodafone um hvort að upp hafi komið vandamál tengd framkvæmd símakosningar í einvígi úrslita Söngvakeppni Sjónvarpsins um helgina er sú að engin sjáanleg vandamál hafi komið upp. Útilokað er með öllu að kosningakerfið hafi getað hagað sér ólíkt milli símanúmera í kosningunni.

Vísir greindi frá því í gær að verið væri að skoða málið en Júlí Heiðari Halldórssyni, einn af höfundum lagsins Í stormi sem att kappi gegn Our Choice í einvíginu, barst um helgina fjölda ábendinga þess efnis að fólk hafi ekki náð í gegn þegar það reyndi að kjósa lag hans, sem flutt var af Degi Sigurðssyni.

„Niðurstaða þeirrar greiningar er skýr og tekur af allan vafa um að nokkuð óeðlilegt eða sjáanleg vandamál hafi komið upp og útiloka með öllu að kosningakerfið hafi getað hagað sér ólíkt milli símanúmera í kosningunni,“ segir í yfirlýsingu frá RÚV.

Sjá einnig:Ari Ólafsson vann Söngavakeppnina

Í yfirlýsingu frá Vodafone, sem sá um símakosninguna, segir einnig að tæknimenn fyrirtækisins hafi skoðað alla helstu þætti varðandi símakosninguna.

„Sú skoðun benti ekki til neinna sjáanlegra vandamála með kosningakerfið sem notað var í símakosningunni. Bæði SMS leiðin og innhringileiðin virkuðu án truflana. Símstöðin sem notuð var í kosninguna, er sérstaklega hönnuð með símakosningar í huga, og hefur verið notuð í sama tilgangi um árabil og án hnökra,“ segir í yfirlýsingunni.

Þá segir einnig að nokkuð margir þættir geti haft áhrif á það hvort fólk geti kosið. Er bent á að þeir sem noti farsíma þar sem margir eru samankomnir þurfi að reiða sig á radíokerfi fjarskiptafélags síns. Það sé þekkt vandamál að radíókerfi séu fljót að fyllast þegar þúsundir manna taki upp símann.

„Það er vert að taka fram að einstök símanúmer í símakosningunni eru alveg eins sett upp í kosningakerfinu og nota sama búnað, kosningakerfið hegðar sér því nákvæmlega eins óháð í hvaða kosninganúmer er hringt. Það er að okkar mati útilokað að kosningakerfið hafi hegðað sér ólíkt milli símanúmera, og ekkert sem bendir til þess í skoðun dagsins,“ segir í yfirlýsingu Vodafone.

Vísir er í eigu Fjarskipta hf., móðurfélags Vodafone á Íslandi.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.