Lífið

Stjórnin hjartfólgin Bræðslustjóranum

Benedikt Bóas skrifar
Bræðslan er ein allra skemmtilegasta hátíð landsins og verður haldin í 14. sinn í sumar. Í fyrra var óhappatalan 13 og þá rigndi. Magni lofar sól og sumri á hátíðinni í ár.
Bræðslan er ein allra skemmtilegasta hátíð landsins og verður haldin í 14. sinn í sumar. Í fyrra var óhappatalan 13 og þá rigndi. Magni lofar sól og sumri á hátíðinni í ár.
„Stjórnin ber ábyrgð á fjórum frænkum mínum og gríðarlega góðu hjónabandi því Heiðar bróðir kynntist konunni sinni á balli með hljómsveitinni,“ segir Magni Ásgeirsson en þeir bræður standa að Bræðslunni í 14. sinn í sumar. Eftir 12 veðurgóðar hátíðir þar sem sólin skein stöðugt opnuðust einhverjar flóðgáttir í fyrra og gestum og gangandi var í fyrsta sinn kalt á hátíðinni. „Kannski spilaði inn í að þetta var 13. árið. Það voru búnar að vera 12 sólir í röð en við stefnum ótrauð á að byrja aftur á númer eitt í ár,“ segir hann.

Magni spilaði með Á móti sól á Aldrei fór ég suður hátíðinni á Ísafirði um páskana en þetta var í fyrsta sinn sem hann fer. „Djöfull kunna Vestfirðingar að skemmta sér og öðrum,“ segir hann glaður. „Við erum að halda okkar hátíð í 14. sinn og Aldrei fór ég suður, LungA, Eistnaflug og meira að segja Blúshátíðin eru allar á svipuðum aldri. Það virðist eitthvað hafa gerst árin 2004-2006 þar sem mörgum datt í hug að blása í hátíðarlúðrana. Það voru margir í góðu skapi þarna rétt fyrir kreppu en það sem þetta er allt enn fallegra núna, svona nokkrum árum síðar.“

Fyrir utan Stjórnina munu Emmsjé Gauti, Agent Fresco, Be­tween Mountains, Daði Freyr, og Atomstation, kæta lýðinn. „Þetta er eitthvað fyrir alla. Við erum með góða styrktaraðila sem gera okkur kleift að halda viðburð af þessari stærðargráðu á ekki stærri stað en Borgarfjörður eystri er, auk þess sem íbúar Borgarfjarðar eru ótrúlega jákvæðir út í þetta.“

Hann segir að það sé einhver fegurð yfir hátíðinni enda séu Íslendingar vaxnir upp úr því að mæta til að slást. „Það er ekkert vesen. Það hefur ekki komið upp lögreglumál á Bræðslunni að mér vitandi. Það sást best í fyrra þegar byrjaði að rigna að þá voru allir boðnir og búnir að opna dyrnar hjá sér og hjálpuðust að. Það væsti ekki um neinn. Sem betur fer eru Íslendingar vaxnir upp úr því að fara á ball og slást. Það eru allir í sama liði og ein stór fjölskylda sem er svo fallegt. Þetta er stemning sem við erum mjög stolt af og ég fann einmitt líka fyrir vestan.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.