Friðrik, krónprins Dana, var staddur í Reykjavík um helgina og skemmti sér, að því er virtist, konunglega í höfuðborginni. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins kom hann ásamt fríðu föruneyti á skemmtistaðinn Pablo Discobar. Þar var krónprinsinn á gestalista en hann afþakkaði að fá borð og fór þess í stað beint á barinn og féll vel inn í hóp gestanna sem fyrir voru.
Að sögn þeirra sem voru á staðnum höfðu gestir barsins ekki hugmynd um að hér væri sjálfur krónprins Danmerkur á ferð, hvað þá barna-barna-barna-barnabarn Viktoríu Bretadrottningar og sá fyrsti í erfðaröðinni að dönsku krúnunni.
Sjá einnig: Friðrik Krónprins staddur á Íslandi
Þetta var ekki fyrsta stopp hjá Friðriki og föruneyti hans. Heimildarmaður Fréttablaðsins á veitingastaðnum Snaps sá prinsinn snæða kvöldverð þar. Þar vakti Friðrik mikla athygli meðal gesta en sumir fengu mynd af sér með prinsinum.
Royalistarnir virðast þannig frekar halda til á Snaps en á Pablo Discobar.
Krónprinsinn verður fimmtugur þann 26. maí og af því tilefni verða mikil hátíðarhöld í Danmörku. Verða meðal annars haldnar hlaupahátíðir í fimm borgum.

