Innlent

Íbúðalánasjóður skoðar að kaupa íbúð í ónýtu húsi

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Stöðvarfirði.
Frá Stöðvarfirði. Vísir/GVA
Íbúðalánasjóður segir að unnið sé að viðeigandi lausn í máli sem snýr að húsi á Stöðvarfirði sem sagt er óíbúðarhæft. Sjóðurinn á eina íbúð af tveimur í húsinu en í fréttum Ríkisútvarpsins var rætt við Lilju Jóhannsdóttur, sem á hina íbúðina. Hún sagði farir sínar ekki sléttar og að hún hafi þurft að flýja úr íbúðinni vegna þess að sjóðurinn vilji ekki fara í nauðsynlegar viðgerðir.



Vatn og mýs hafi átt greiða leið inn í húsið í vetur.

Í yfirlýsingu frá Íbúðalánasjóði segir að til hafi staðið að selja hina íbúðina en það hafi ekki gengið vegna lítils áhuga kaupenda. Hún hafi verið á sölulista í áraraðir og á meðan hafi enginn búið í henni.

„Vegna bágs ástands hússins og skorts á viðhaldi býr eigandi hinnar íbúðarinnar nú við óheilsusamlegar aðstæður. Nauðsynlegt er að fara í stórfelldar viðgerðir á húsinu í heild til að það verði íbúðarhæft til lengri tíma litið. Ljóst er að báðar íbúðir eru illseljanlegar að óbreyttu,“ segir í yfirlýsingunni.

Þess vegna hefur sjóðurinn nú það til skoðunar að kaupa íbúð konunnar og vonast til þess að einhver sjái sér hag í því að kaupa húsið í heilu lagi og gera það upp. Þannig fái Lilja sömuleiðis viðunandi lausn sinna mála.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×