„Ég hef ekki verið á sviði hér í bíóinu frá því ég tók við prófskírteininu á sínum tíma og útskrifaðist úr Háskóla Íslands,“ sagði Róbert í upphafi þegar hann ávarpaði gesti.
Fyrsta glæran sem hann birti vakti mikla athygli fundarmanna; það var mynd af servíettu. Á hana hafði hann hripað niður metnaðarfullar hugmyndir sínar á fundi með fjárfestum í hádegisverði á veitingahúsi í New York árið 2009. Eftir svolitla þrautagöngu á milli fjárfesta á erfiðum tímum fjármálakreppunnar var það loksins þarna í hádegisverðinum í New York sem hugmynd hans fékk hljómgrunn. Párið á sérvíettuna reyndist vinningsformúlan. Servíettan er núna á vissan hátt tákn um upphaf Alvogen.
Ævintýrið hefur heldur betur undið upp á sig. Velta Alvogen meira en 26-faldaðist fyrstu átta árin, frá 2009 til 2017, eða um 59% að jafnaði á ári og er komin yfir 1 milljarð dollara. Starfsmenn eru 2.800 talsins í 35 löndum, verksmiðjur og rannsóknarstofur eru fimm, 200 hefðbundin samheitalyf eru í pípunum og sjö samheitalyf í flokki líftæknilyfja.
Á fundinum kom fram að um 90% af hagnaði Alvogen koma frá mörkuðum Alvogen þar sem konur eru í forsvari. Helstu markaðssvæði Alvogen eru í Bandaríkjunum, Asíu og í Mið- og Austur-Evrópu. „Það vill þannig til að konur stýra á stærstu markaðssvæðum fyrirtækisins og hafa þær valist til forystu vegna eigin hæfileika og verið farsælar í starfi,“ sagði Róbert.
Þessi umfjöllun er unnin í samvinnu við Háskóla Íslands og Alvogen.