Innlent

Skemmtiferðaskip nálægt því að hitta ekki „hafnarkjaftinn“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir og Tryggvi Páll Tryggvason skrifa
Skipið var komið töluvert nálægt strandlínunni.
Skipið var komið töluvert nálægt strandlínunni. Mynd/Kristján Þór Júlíusson
Ekki mátti miklu muna að Ocean Diamond, skip frá Iceland Pro Cruises hitti ekki inn í Reykjavíkurhöfn snemma í morgun. Skipið vakti athygli sjónarvotta sem fannst það komið óþægilega nálægt því að stranda.

Kristján Þór Júlíusson er einn þeirra sem birtir myndir af skipinu á samfélagsmiðlum í dag, en þar segir hann að skipið hafi verið nálægt því að hitta ekki „hafnarkjaftinn.“

Líkt og sjá má á kortinu hér fyrir neðan sem sinnir siglingaleið skipsins var leið þess inn í höfnina ekki greið og þurfti skipið nokkrar atrennur til þess að komast inn.

„Það var dálítið stíf austanátt í morgun og skipið kom við Norðurgarðinn þegar það var að sigla hér inn. Það kom rispa á aftanverðu á stjórnborðshlið skipsins,“ segir Jón Þorvaldsson, aðstoðarhafnarstjóri í samtali við Vísi.

Í meðfylgjandi myndbandi sem tekið var á vettvangi má sjá hvernig skipið nuddar sér upp við Norðurbakkann.


Jón segist ekki vita til þess að skemmdir hafi orðið á Norðurbakkanum en skipið liggur nú við bryggju. Jón segir að atvik sem þessi sé ekki tíð auk þess sem að þetta tiltekna skip hafi oft siglt inn í höfnina.

Iceland Pro Cruises fara í siglingar um siglingar í kringum Ísland og Grænland. Boðið er upp á nokkrar mismunandi siglingar við Ísland, stystu ferðirnar eru í sex nætur en þær lengstu í ellefu.

Leið skipsins inn í höfnina.Mynd/Marine Traffic.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×