Þetta er meðal þess sem fram kom í máli Björns Berg Gunnarssonar, fræðslustjóra Íslandsbanka, á kynningarfundi í höfuðstöðvum bankans á dögunum. Björn kynnti þar skýrslu sína um fjármál HM 2018 (PDF) þar sem Íslendingar verða í fyrsta skipti á meðal þátttökuþjóða.
Björn kynnti ýmsar forvitnilegar staðreyndir varðandi HM, meðal annars þá að keppnin felur í sér gríðarlegan kostnað fyrir gestgjafann hverju sinni en á sama tíma græðir FIFA á tá og fingri. Upphæðirnar eru svo háar að óhjákvæmilega veltir maður fyrir sér hvort ekki væri hægt að nýta peningana í mikilvægari málstað.
Guðmundur Benediktsson íþróttalýsandi og Hermann Hreiðarsson, fyrrverandi landsliðsmaður, ræddu málin við Björn og var komið víða við. Meðal annars rifjaði Hermann upp þegar hann skellti sér á barinn með félögum sínum úr Charlton, Shaun Bartlett og Mark Fish, þegar tilkynna átti hvaða þjóð myndi halda HM 2010.
Svo fór að Suður-Afríka tryggði sér keppnina og ætlaði allt um koll að keyra hjá þeim Fish, Bartlett og Hermanni sem segir ekkert annað hafa verið í stöðunni en að þykjast vera frá Suður-Afríku. Gleðin hafi verið svo mikil að það mætti halda að Suður-Afíka hefði orðið heimsmeistari.
Upptöku frá fundinum má sjá hér að neðan.