Starfshópurinn leggur meðal annars til að ábyrgð Seðlabanka Íslands verði aukinn og hann taki við hluta af verkefnum Fjármálaeftirlitsins. Þá verði stjórnskipulagi Seðlabanka Íslands breytt þannig að með seðlabankastjóra starfi tveir aðstoðarseðlabankastjórar.
Á blaðamannafundi, þar sem starfshópurinn kynnti niðurstöður sínar, boðaði Katrín Jakobsdóttir frumvarp um breytinginar á lögum um Seðlabankann. Hún væntir þess að frumvarp þessa efnis verði lagt fram á næsta þingi.
Starfshópurinn leggur fram ellefu tillögur og Fréttablaðið gerir hér eftir grein fyrir fimm þeirra.
Sú fyrsta er að Seðlabanki Íslands verði einn ábyrgðaraðili fyrir þjóðhagsvarúð og eindarvarúð og hafi yfirumsjón með greiningu, ákvörðun og beitingu allra þjóðhagsvarúðartækja. „Ábyrgðin færist því frá Fjármálaeftirlitinu yfir til Seðlabankans og verður verkaskipting skýrari milli þessara tveggja stofnana. Vægi fjármálastöðugleika mun við breytinguna aukast í starfsemi Seðlabankans. Fjármálaeftirlitið mun áfram gegna hlutverki eftirlitsaðila á markaði,“ segir í tillögum hópsins.

Þriðja tillagan felur í sér að fjármálastöðugleikanefnd verði sett á laggirnar í stað fjármálastöðugleikaráðs og seðlabankastjóri og fjármála- og efnahagsráðherra gegni þar báðir formennsku. Nefndin taki ákvörðun um beitingu allrar þjóðhagsvarúðar.
Fjórða tillagan felur svo í sér að samstarfssamningi ríkisstjórnar og Seðlabanka Íslands verði breytt þannig að viðhald fjármálastöðugleika hafi forgang yfir viðhald verðstöðugleika ef þær aðstæður skapast að ógn skapist gagnvart hinum fyrrnefnda. „Í því tilviki skal peningastefnunefnd leyfa verðbólgu umfram markmið til að gefa fjármálastöðugleikanefnd svigrúm til þess að beita þjóðhagsvarúð.“
Fimmta tillagan miðar að því að húsnæðisverð sé undanskilið þeirri verðlagsvísitölu sem verðbólgumarkmið Seðlabankans miðar við. Forsætisráðherra minnti á að kveðið væri á um þetta í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Í stjórnarsáttmálanum segir að ríkisstjórnin muni hefja skoðun á því hvernig megi fjarlægja fasteignaverð úr mælingu neysluvísitölunnar.
Við vinnu starfshópsins var gengið út frá þeirri forsendu að krónan yrði áfram gjaldmiðill Íslendinga í nánústu framtíð og fjármagnshreyfingar til og frá landinu yrðu eins frjálsar og kostur er.