Sænski fjölmiðillinn Expressen náði tali af Rúrik er hann var í Miami í för félaga sinna úr landsliðinu sem skelltu sér sumir hverjir þangað í frí eftir HM. Flug Rúriks á Instagram þykir ævintýraleg enda var hann með aðeins um 30 þúsund fylgjendur fyrir HM.
Er það helst útlit Rúriks sem virðist draga að fylgjendurna en hann var meðal annars kallaður fegursti leikmaður HM. Rúrik segist ekki hafa vitað hvaðan á sig stóð veðrið þegar fylgjendunum tók að fjölga svo ört.
„Ég var í sjokki eftir að hafa litið á símann og ég vissi ekkert hvað hvar að gerast. Ég hef aldrei upplifað annað eins,“ segir Rúrik sem hefur þó gaman af athyglinni ef marka má orð landsliðsfélaga hans.
Þá segist Rúrik þegar hafa fengið nokkur tilboð í krafti hinnar nýtilkomnu heimsfrægðar en ekkert sé skjalfest enn. Hann ætli þó ekki að breyta því hvernig hann noti Instagram.
„Það breytist ekkert. Ég hef alltaf haft gaman af tísku og fötum og mér finnst gaman að setja myndir á Instagram. Það er þó erfitt að tala um þetta án þess að virðast hrokafullur,“ segir Rúrik.