Forstjóri flugrisans Boeing lýsti yfir þungum áhyggjum af tollastríði Bandaríkjanna og Kína er hann ræddi við blaðamenn í aðdraganda Farnborough-flugsýningarinnar sem hefst í Bretlandi í vikunni.
Dennis Muilenburg sagði að viðskiptahöftin, sem Bandaríkin og Kína hafa nú lagt á hvort ríkið um sig, hækki kostnað við framleiðslu á flugvélum og öðrum loftförum. Sú framleiðsla hafi jákvæð áhrif á hagvöxt í heiminum öllum og því geti tollastríðin haft alvarlegar afleiðingar.
Sjá einnig: Fyrstu skotunum í viðskiptastríði Bandaríkjanna og Kína hleypt af
Muilenburg segist þó hafa átt í viðræðum við ríkisstjórnir beggja ríka, Bandaríkjanna og Kína, og fullyrðir að hann sé vongóður um farsæla lausn á deilunum. Hann segir Boeing, sem er stærsti framleiðandinn í flugbransanum, þó ekki hafa fundið fyrir áhrifum tollastríðsins enn sem komið er.
Eins og staðan er núna hafa ríkin tvö lagt tolla á vörur frá hvort öðru upp á 34 milljarða dollara eða um 3.600 milljarða íslenskra króna.
Trump Bandaríkjaforseti hefur jafnframt hótað að leggja tolla á allar innfluttar vörur frá Kína að verðmæti um 500 milljarða dollara á ári, eða 52.500 milljarða króna.
