Sport

Þjálfari Söru ræðir fyrsta daginn: Eins og við hefðum hent peningum í ruslið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir í maraþonróðrinum.
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir í maraþonróðrinum. Mynd/Instagram/sarasigmunds
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir er strax orðin 128 stigum á eftir fyrstu konu á heimsleikunum í CrossFit en keppnin heldur áfram í dag eftir frídag í gær.

Útlitið er því ekki alltof bjart eftir þennan fyrsta keppnisdag en þjálfari Söru hrósaði henni fyrir miðvikudaginn. Hún er í 10. sæti með 210 stig.

Phil Mansfield er nýr þjálfari íslensku crossfitstjörnunnar.  Hann var í viðtali hjá REDPILL Training á Youtube þar em hann talar um fyrsta daginn hjá sinni konu. Sara sjálf vekur líka athygli á viðtalinu á samfélagsmiðlum sínum.









„Það eru blendnar tilfinningar eftir þennan fyrsta dag,“ sagði Phil Mansfield.

„Ef við tökum út hjólakeppnina þá átti Sara yndislegan dag. Hún fylgdi keppnisáætluninni og náði sínum besta árangri í bæði hnébeygju og réttstöðulyftu sem og í maraþonróðrinum,“ sagði Phil Mansfield og hrósaði henni einnig fyrir 30 Muscle Ups greinina sem fór fram í erfiðum vindi.

„Þetta voru þrjár fullkomnar greinar hjá henni og hún fylgdi líka keppnisáætluninni í hjólakeppninni fullkomlega í níu hringi. Þá gerði hún lítil mistök og í íþróttum geta lítil mistök verið dýrkeypt,“ sagði Mansfield.

„Sara gerði ein slæm mistök á hjólinu og það kostaði hana 15, 16 og jafnvel 19 sæti. Hún þarf núna að vinna þetta upp og reyna að koma sér aftur inn í baráttuna,“ sagði Mansfield.

„Við töluðum saman strax eftir hjólakeppnina. Við vissum að hún væri öflugasta hjólareiðakonan í hópnum og að taktíkin okkar hafi verið rétt. Hún féll niður um tuttugu sæti á síðasta hringnum og auðvitað var pirringur í gangi þegar við settumst niður enda eins og við hefðum hent peningum í ruslið,“ sagði Mansfield.

„Við litum jafnframt á það þannig að pressan væri ekki lengur á henni heldur á öðrum keppendum. Núna munum við hægt og rólega klóra okkur upp töfluna í einni grein í einu. Við fylgjum áætluninnni, höldum einbeitingunni og sjáum til þess að gera það sem við lofuðum hvoru öðru að gera,“ sagði Mansfield.

„Pressan er á þessum tveimur sem eru efstar (Laura Horvath og Tia-Clair Toomey) og þær líta virkilega vel út. Sara er 40 stigum frá fjórða sætinu og hún verður bara halda vinnunni áfram og taka eitt skref í einu,“ sagði Mansfield en það má sjá allt viðtalið við hann hér fyrir neðan.

Heimsleikarnir halda áfram í dag og þá fara fram tvær greinar. Það verður spennandi að sjá hvort Sara nái að komast sér inn í toppbaráttuna. 


Tengdar fréttir

Sara er hugrakkasti íþróttamaðurinn sem ég hef unnið með

Phil Mansfield, nýr þjálfari íslensku crossfitstjörnunnar Ragnheiðar Söru Sigmundsdóttur, talar ekki vel um þær kringumstæður sem Sara hafur verið í undanfarin ár og ekki fá gömlu þjálfararnir hennar heldur góða einkunn hjá honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×