Sport

Sara er hugrakkasti íþróttamaðurinn sem ég hef unnið með

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttur.
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttur. Mynd/Instagram síða Söru
Phil Mansfield, nýr þjálfari íslensku crossfitstjörnunnar Ragnheiðar Söru Sigmundsdóttur, talar ekki vel um þær kringumstæður sem Sara hafur verið í undanfarin ár og ekki fá gömlu þjálfararnir hennar heldur góða einkunn hjá honum.

Ragnheiður Sara er eina íslenska crossfitkonan sem hefur verið meðal fjögurra efstu á undanförnum þremur heimsleikum en hún varð þriðja 2015 og 2016 og svo fjórða í fyrra.

Phil Mansfield er í viðtali hjá REDPILL Training á Youtube þar sem hann ræðir nýtt starf sitt sem þjálfari Ragnheiðar Söru sem og þá skoðun margra að hún hafi ekki verið nógu andlega sterk til að komast ofar á síðustu leikum.

Phil Mansfield segir að fyrst á dagskrá hafi verið að gera Söru að atvinnuíþróttamanni.

„Hún var kannski íþróttamaður í fullu starfi áður en hún var ekki atvinnuíþróttamaður. Hún hefur gengið í gegnum erfiða lífsreynslu og margir hafa brugðist henni. Fyrst á dagskrá var því að búa til traust innan hópsins hennar,“ sagði Phil Mansfield.

Mansfield segir að Sara hafi þurft að taka til allsstaðar hjá sér, bæði andlega, líkamlega og í því sem hún lætur ofan í sig. „Þetta er hennar vinna og hún hefur 45-50 tíma á viku til að einbeita sér að því að verða eins góð og hún getur orðið. Okkur hefur tekist það í ár og það var aðalmarkmiðið,“ sagði Mansfield.

„Markmiðið er ekki að vinna þessa heimsleika heldur að vera í sérflokki í crossfit-heiminum næstu fimm árin. Ef við ætlum að ná því þá verðum við að taka eitt skref í einu,“ sagði Mansfield.

Mansfield er síðan spurður út í andlegu hliðina hjá Söru og það að þar liggi hennar veikleiki. Hann er alls ekki sammála því.

„Það er auðvelt fyrir alla að horfa á hana og dæma án þess að þekkja allar staðreyndir. Ef fólk vissi bara hvað Sara hefur þurft að ganga í gegnum á síðustu árum, kringumstæðurnar og umhverfið,“ sagði Mansfield og segir að Sara hafi sjálf viðurkennt að eiga þar hlut að máli með þeim slæmu ákvörðunum sem hún hefur tekið.

„Ef fólk áttaði sig á því hvað hún hefur afrekað þrátt fyrir þetta þá myndi það örugglega kalla hana sterka stelpu. Það er ekkert að andlega hlutanum hjá Söru og þar eru engir veikleikar. Hún hefur afrekað miklu meiri en flestir hefði í þessum aðstæðum vegna mjög, mjög slæmra ákvarðanna bæði hjá henni og liðinu í kringum hana,“ sagði Mansfield.

„Sara er hugrakkasti íþróttamaðurinn sem ég hef unnið með og þetta er ekki stelpa þar sem vantar eitthvað á milli eyrnanna. Þetta er ótrúlega sterk stelpa sem lenti bara í mjög slæmum aðstæðum. Vonandi getum við búið til umhverfi fyrir hana þar sem hún fær að njóta sín.,“ sagði Phil Mansfield en það má sjá allt viðtalið hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×