Kvikmyndaverið hefur viðurkennt að hafa klippt senuna út þar sem Oliva Munn lék á móti manninum. Leikkonan gagnrýnir í dag hvað það tók kvikmyndaverið langan tíma að bregðast við kvörtunum hennar.
Leikstjóri Predator, Shane Black, ákvað að ráða vin sinn Steven Wilder Striegel í lítið hlutverk í myndina. Striegel lék skokkara sem reynir við persónu Munn í myndinni.
Þegar Munn komst að því í sumar að Striegel hefði gengist við broti og setið inni lét hún kvikmyndaverið vita sem ákvað á endanum að klippa alla senuna úr myndinni.
Munn segir í dag að hún vildi óska að kvikmyndaverið hefði brugðist betur við kvörtun hennar og segist hafa mætt þögn stjórnenda þegar hún kom henni á framfæri.
„Það var algjör þögn í tvo daga eftir að ég hafði hringt í þá,“ segir Munn í viðtali við Variety. „Ég þurfti að hringja aftur og segja þeim að mér liði ekki vel með að eiga að kynna MTV verðlaunin með Keegan Michael Key (sem einnig leikur í myndinni) nema að búið væri að klippa gaurinn úr myndinni.“
Shane Black hefur beðist afsökunar á því að hafa ráðið vin sinn og segir tilraunir sínar til að hafa reyna að rétta honum hjálparhönd hafa borið vitni um slæma dómgreind.
„Ég trúi á að fólk eigi að fá annað tækifæri – en svo kemst maður að því að sumir eiga það kannski ekki jafn mikið skilið og maður hafði vonað.“
Predator verður frumsýnd hér á landi 14. september.