Tæknifyrirtækið Kaptio hlýtur Vaxtasprotann í ár en verðlaunin voru veitt á Café Flóru í Grasagarðinum í morgun.
Arnar Laufdal Ólafsson forstjóri fyrirtækisins segir að um 20 fyrirtæki séu farin að nota tölvukerfi fyrirtækisins víða um heim.
Um er að ræða tölvukerfið Kaptio Travel sem aðstoðar ferðaskrifstofur og ferðaskipuleggjendur að halda utan um tilboðsferli og bókanir viðskiptavina.
Kaptio var stofnað árið 2009 af Arnari Laufdal Ólafssyni og Ragnari Fjölnissyni. Arnar segir að nú starfi um 50 manns hjá fyrirtækinu og þakkar þennan árangurinn starfsfólki og fyrirtækjum sem nýta sér búnaðinn.
Verðlaunin eru samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Samtaka sprotafyrirtækja, Háskólans í Reykjavík og Rannsóknarmiðstöðvar Íslands.
Þrjú önnur fyrirtæki hlutu viðurkenningar fyrir vöxt. Orf líftækni, Kerecis og Gangverk.

