Lífið

Bush laumaði sælgætismola í lófa Obama og bræddi hjörtu netverja

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Molinn gengur hér manna á milli. Laura Bush fylgist kankvís með, eiginmanni sínum á vinstri hönd.
Molinn gengur hér manna á milli. Laura Bush fylgist kankvís með, eiginmanni sínum á vinstri hönd. Skjáskot/Youtube
Myndbrot af fyrrverandi Bandaríkjaforseta George W. Bush að lauma sælgætismola í lófa fyrrverandi forsetafrúr Bandaríkjanna, Michelle Obama, við jarðarför þingmannsins Johns McCain í gær hefur vakið nokkra athygli á samfélagsmiðlum.

Sjá einnig: Minningarathöfn um John McCain var haldin í dag

Atvikið þykir afar hjartnæmt en Michelle og George er vel til vina. Michelle sat við hlið eiginmanns síns, fyrrverandi Bandaríkjaforseta Baracks Obama, við athöfnina og George var í fylgd með eiginkonu sinni, fyrrverand forsetafrúnni Lauru Bush. Sælgætismolinn var upprunninn hjá þeirri síðastnefndu og sá George til þess að Michelle fengi að smakka.

Myndbönd af atvikinu má sjá hér að neðan. Netverjar hafa margir orð á því að atvikið hafi verið „krúttlegt“ og einn segir myndbrotið meira að segja blása sér von í brjóst um framtíð lýðveldisins, Bandaríkjanna.

Bæði Barack Obama og George W. Bush fluttu erindi við jarðarför McCain sem haldin var í Washington D.C. í gær. Obama sigraði McCain í forsetakosningunum árið 2008 og Bush bar sigurorð af honum í forvali Repúblikanaflokksins í forsetakosningunum árið 2000.

„Er nokkur betri leið til þess að eiga síðasta orðið en að láta okkur George ausa hann lofi frammi fyrir alþjóðlegum áhorfendahópi?“ spurði Obama í ræðu sinni. Þeim Obama, Bush og McCain kom ætíð vel saman, þrátt fyrir ágreining á vettvangi stjórnmála.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×