Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar, segir það áhyggjuefni hvernig leikmenn mæta til leiks en Stjarnan fékk skell gegn Val í Olís-deild karla í kvöld.
„Það gerist ekki neitt, það er vandamálið.“ sagði Rúnar aðspurður um það hvað gerðist í kvöld.
„Þetta er lélegasta frammistaða sem ég hef séð mitt lið spila, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við náðum að minnka þetta niður í 7 mörk og klaufaskapur að hafa endað þetta þá í 16 mörkum, en bara ógeðslega lélegt frá A-Ö.“
„Við gáfum þeim aldrei leik, miðað við hvernig við mættum til leiks. Það stóð ekki steinn yfir steini. Menn gátu ekki gefið einföldustu sendingar milli manna, einföldustu leikkerfi virkuðu ekki."
„Við vorum búnir að undirbúa það og vissum að þeir væru aggressívir og sterkir í vörn, en samt voru menn ekki viðstaddir.“ sagði Rúnar.
Það vantaði lykilmenn í lið Stjörnunnar í dag, líkt og í síðustu leikjum. Ari Magnús Þorgeirsson, Egill Magnússon og markvörðurinn Sveinbjörn Pétursson eru fjarri góðu gamni vegna meiðsla.
„Það kemur maður í manns stað, þótt það vanti Ara Magnús, Egil og Bubba í markið þá var það ekki vandamálið heldur hvernig við mættum til leiks eftir að hafa undirbúið þennann leik alla vikuna.“
Rúnar talaði um það fyrir leiktíð að hann væri ánægður ef liðið væri búið að stilla sig saman fyrir áramót og virtist ekki búast við miklu í upphafi móts, þetta var þó ekki það sem hann bjóst við.
„Ég bjóst meira við því að menn myndu standa meira í lappirnar, þetta er núna annar leikurinn af þremur þar sem menn eru gjörsamlega hauslausir."
„Þetta veldur mér virkilegum áhyggjum og veit ég ekki hvort að tveir, þrír leikmenn séu að fara að bjarga því.“ sagði Rúnar að lokum.
Rúnar: Lélegasta frammistaða sem ég hef séð
Tengdar fréttir
Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Valur 21-37 │Stjörnumenn niðurlægðir á heimavelli
Sextán marka sigur Vals í Garðabæ í kvöld. Ótrúlegar tölur.