Tónlist

GusGus frumsýnir nýtt myndband: Fjallar um einmana einstakling sem kann ekki að elska

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ellen Loftsdóttir leikstýrði myndbandinu og hefur hún áður unnið með GusGus.
Ellen Loftsdóttir leikstýrði myndbandinu og hefur hún áður unnið með GusGus.
„Titill lagsins og viðlag þess er Don't Know Hot To Love. Myndbandið fjallar í grófum dráttum um mjög leitandi og einmana einstakling sem kann ekki að elska en þráir heitt að geta það og reynir sitt besta til þess að verða ástfanginn,“ segir Ellen Loftsdóttir sem er ein af þremur leikstjórum í nýju myndbandi frá íslensku hljómsveitinni GusGus og er lagið frumsýnt hér á Vísi.

„Hann skilur svo loks að ást er ekki lærð hegðun heldur tilfinning sem hann verður að finna innra með sér og þá finnur hann til vanmáttar. Áhorfandinn fylgir honum í gegnum þetta ferðalag og oft er óljóst hvort um raunveruleikann eða sjúkan, einmana hugarheims hetjunnar er að ræða.“



Sterk og skýr verkaskipting

Ellen segir að ferlið hafi allt verið mjög krefjandi, lærdómsríkt og afar skemmtilegt.

„Ég var í rauninni fyrir smá áfalli hversu vel og snurðulaust þetta gekk allt saman svona í ljósi þess að við vorum þrjú að leikstýra þessu myndbandi. Sterk og skýr verkaskipting var kannski stór ástæða þess hversu vel allt gekk. Við skiptum mismunandi mikilvægum hlutverkum á milli sem síðan sameinuðust í leikstjórninni. Andri Haraldsson sá um kvikmyndatöku, aðalhlutverkið var í höndum á Baltasar Breka og ég sá um listræna stjórnun. Stærsti þátturinn var kannski hversu heppin við vorum með okkar yndislega crew og einstaklega fallegan og hæfileikaríkan leikarahóp sem vakti dag og nótt með okkur og eiga öll stóran þátt í að hugarheimur þessa myndbands varð að veruleika.“

Frá tökum á myndbandinu.
Hún vill nefna sérstaklega Tind Kárason sem framleiddi myndbandið og kallar Ellen Tind snilling sem hélt fólki við efnið á öllum stundum. Tökur fóru fram á Vestfjörðum og einnig í Reykjavík. Ellen segir að gott sé að vinna með meðlimum GusGus.

„Ég hef komið að gerð nokkurra tónlistarmyndbanda bæði sem stílisti og leikstjóri.  Ég hef mikið verið að vinna með þeim fyrir þessa plötu. Séð um hin og þessi mál sem snúa að listrænni stjórnun bandsins og síðan auðvitað þetta myndband. Það er krefjandi og skemmtilegt að vinna með GusGus, margir sem koma að bandinu og hafa allir auðvitað sterkar skoðanir, sem gaman er að takast á við. Ég kem úr tískuheiminum svo ég er smá að fara út úr mínum þægindaramma og sem ég hef mjög gaman af.“

Frá tökum.

Stefna á tuttugu milljónir

Ellen gerði myndbandið við lagið Over og þegar þessi frétt er skrifuð er myndbandið komið með 12 milljónir áhorfa. Það kom Ellen töluvert á óvart að sjá hvernig viðtökur myndbandið fékk á sínum tíma.

„Það kom auðvitað skemmtilega á óvart þar sem myndbandið var alveg smá óvenjulegt á þeim tíma og þá sérstaklega þegar kemur að stílbragði. Það er alltaf hægt að gera betur og maður stefnir auðvitað alltaf hærra og að gera betur næst. Svo eigum við ekki bara að segja 20 milljónir og yfir,“ segir Ellen sem hvetur fólk að horfa á nýja myndbandið með heyrnartól og hafa hátt stillt.

Neðar má sjá myndir sem sýna stemninguna bakvið tjöldin við gerð myndbandsins. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.