Lífið

Stjörnuspá Siggu Kling – Nautið: Eins og það komi "error“ í ástarorkuna

Sigga Kling skrifar
Elsku Nautið mitt, það er svo sannarlega ekki allt sem sýnist í kringum þig og áhyggjur eru óþarfar, þú færð meira en augað sér og þá sérstaklega í sambandi við ást og tilfinningar. Það er svo í eðli þínu að  loka inni erfiðleika og standa bara keikur alveg sama hvað gengur á. Þá getur maður fengið einskonar kulnun, ég þoli þetta orð reyndar ekki svo ég ætla frekar að nota orðið uppgjöf sem er bara eins og að vera uppgefinn.

Þú ert að fara að keyra allt í gang, keyrum þetta í gang er setningin þín og næstu mánuðir munu líða eins og örskot. Þú ert svo mikið jólabarn og því fyrr en seinna er betra fyrir þig að setja mikið af ljósum upp, því ljós eru sérlega hressandi fyrir Nautin, en það eru til Naut sem hata jólin og ástæðan fyrir því liggur í fortíðinni. Ef þú ert í þeim hópi taktu þá einskæra ákvörðun um að læra að elska þau (jólin), það er það eina sem þú þarft.

Það verður mikið að gera hjá þér svo hættu alveg að fresta því sem þú þarft að gera, segðu bara við sjálfan þig, ég ætla að klára þetta núna, þú skalt bretta upp ermarnar, því hálfnað verk þá hafið er!

Þvílíkt dásemdartímabil verður í kringum þig og þú átt eftir að taka eftir því hvað þú ert virkilega heppin;  alltaf þegar þú sérð þú ert það segðu þá: Mikið rosalega er ég heppin! –  Og  þá verðurðu enn heppnari.

Þú hefur þann hæfileika að geta tekið mikla áhættu og fá góða niðurstöðu, en svo eru líka til þau Naut sem nenna því ekki og það er bara allt í lagi, því það sem gerir þig hamingjusama er það sem skiptir máli. Þú verður sjaldan ástfangin, en þegar ástin hittir þig er það yfirleitt til eilífðar, en ef hún særir þig þá er eins og það komi „error“ í ástarorkuna þína og þú vilt bara alls ekki gefa færi á þér. Það er líka þannig að ef þú særist þá nennirðu ekki að taka áhættu með annarri manneskju og lokar fyrir þessar tilfinningar.

Þú ert með yfirnáttúrulegt seiðandi afl í kringum þig, alveg sama hvort kílóin eru fá eða mörg, sjálfstraustið lítið eða stórt, svo þú getur á þessum fallega vetri leyft ástinni að koma til þín, því hvergi er hún í raun eins örugg og hjá þér. En aldrei láta afbrýðisemi hvar svo sem þú ert staddur í lífinu stjórna þér, því það mun stoppa það flæði sem er í boði, svo notaðu töfrana, punktur!

Knús og kossar, þín Sigga Kling

Fræg Naut: Aron Einar Gunnarsson fyrirliði íslenska knattspyrnulandsliðsins, Hannes Þór Halldórsson markvörður, Ari Freyr Skúlason landsliðsmaður, Svali Kaldalóns fjölmiðlamógúll, Guðrún Veiga Guðmundsdóttir, rithöfundur og latikokkur, Ellý Ármanns fjölmiðlakona, Friðrik Þór Friðriksson leikstjóri, Valtýr Björn Valtýsson íþróttafréttamaður, Ólafur Ragnar Grímsson, Álfheiður Ingadóttir þingkona, Halldór Laxness, rithöfundur og skáld, Rúnar Freyr Gíslason leikari, Garðar Thor Cortes söngvari, Helga Möller söngkona, Katrín Tanja Davíðsdóttir crossfit-meistari, Nanna Bryndís Hilmarsdóttir söngkona, Pétur Jóhann Sigfússon, Addi Exos dj-snillingur, Davíð Rúnar Bjarnason, boxari, Þórunn Pálsdóttir fasteignasali.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.