Körfubolti

Körfuboltakvöld: Gunnar Ólafsson er að koma Fannari á óvart

Bjarni Þórarinn Hallfreðsson skrifar
Gunnar hefur verið öflugur í liði Keflvíkinga
Gunnar hefur verið öflugur í liði Keflvíkinga vf.is
Gunnar Ólafsson hefur byrjað leiktíðina vel fyrir Keflavík í Dominos-deildinni en hann snéri aftur til liðsins fyrir tímabilið eftir að hafa leikið í bandaríska háskólaboltanum.



Gunnar var til umræðu hjá sérfræðingunum í Körfuboltakvöldið en Fannar Ólafsson er ákaflega hrifinn af honum.



„Eins og ég sagði einhvern tímann um daginn, þá vissi ég ekki við hverju ég átti að búast. Hann hafði verið í háskóla úti. Talandi um að vera tilbúinn í að spila þennan leik, talandi um að vera með góðan grunn, talandi um að vera alltaf á fullu. Það er svo mikið varið í þennan strák. Hann er ofboðslega góður, kom mér rosalega á óvart. Hann er nautsterkur og með bullandi sjálfstraust,“ sagði Fannar.



Gunnar átti flottan leik í tveggja stiga sigri Keflavíkur á Skallagrím en hann skoraði 20 stig.



„Hann var ekkert að hitta sérstaklega í þessum leik en hann er samt með 20 stig og varnarleikurinn sem hann spilar og annað slíkt. Orkan sem kemur frá honum líka,“ sagði Hermann Hauksson um Gunnar.



Gunnar lék með St. Francis háskólanum síðastliðin fjögur ár en hann fékk ekki að spila eins mikið og hann vildi þar.



„Maður sá það alveg áður en hann fór frá landi að þetta var hæfileikaríkur strákur. Hæfileikarnir voru alveg til. En svo fer hann út í fjögur ár og fær mismikið spil, oft mikið minna en hann þurfti. En hann þraukaði í fjögur ár,“ bætti Hermann við.



„Þú ert að æfa með ofboðslega öflugum leikmönnum í góðum skóla. Hann bætti sig og hann kyngdi því. Ég er mjög hrifinn af honum," sagði Fannar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×