Þrír sigrar úr fyrstu þremur leikjum Solskjær

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ole Gunnar Solskjær.
Ole Gunnar Solskjær. vísir/getty
Ole Gunnar Solskjær heldur áfram að skila góðum úrslitum með Manchester United, lærisveinar hans unnu þægilegan sigur á Bournemouth á Old Trafford í dag í síðasta leik 20. umferðar.

Norðmaðurinn vann fyrstu tvo leiki sína eftir að hafa tekið við liði United fyrir jólin og hélt sigurgöngunni áfram í dag, United vann 4-1 sigur á Bournemouth.

Marcus Rashford sýndi snilli sína strax í upphafi leiks þegar hann lék sér að tveimur varnarmönnum Bournemouth áður en hann sendi boltann fyrir markið þar sem Paul Pogba var mættur og stýrði boltanum í netið. United komið yfir eftir fimm mínútna leik.

Rashford hélt áfram að ógna og var duglegur að reyna að lauma sér inn fyrir varnarlínu Bournemouth þrátt fyrir að falla nokkrum sinnum í rangstöðuna.

Það var þó Pogba, sem virðist ekkert þurfa að hafa fyrir því að skora þessa dagana og hefur heldur betur gengið undir endurnýjun lífdaga eftir að Jose Mourinho hvarf á braut, sem skoraði annað mark United. Ander Herrera átti sendingu inn á teiginn sem Pogba skallaði í netið.

Rashford komst svo loks á blað undir lok fyrri hálfleiks. Eftir mark Rashford voru leikmenn United líklega komnir með hugann við búningsherbergið því þeir gleymdu sér aðeins í varnarleiknum í hornspyrnu Bournemouth í uppbótartíma fyrri hálfleiks og Nathan Ake skoraði fyrir Bournemouth.

Leikmenn Bournemouth voru meira með boltann í byrjun seinni hálfleiks en náðu þó lítið að gera við hann og ógnuðu David de Gea ekki mikið.

Um miðjan seinni hálfleikinn kom Romelu Lukaku inn á í liði United og hann elskar að spila við Bournemouth. Hann hafði skorað sjö mörk í átta leikjum gegn suðurstrandarliðinu og örfáum mínútum eftir að hann kom inn á var hann búinn að skora fjórða mark United.

Eftir það var leikurinn úti.

Paul Pogba var nálægt því að setja þrennuna en skot hans var varið í stöngina. Þegar um tíu mínútur voru eftir fór Eric Bailly í óþarflega grófa tæklingu og fékk beint rautt spjald. Óskynsamleg ákvörðun miðað við stöðu leiksins.

United er nú aðeins þremur stigum á eftir Arsenal og átta stigum á eftir Chelsea sem situr í fjórða sæti deildarinnar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira