Sigurmörk í uppbótartíma hjá Cardiff og Fulham

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Camarasa fagnar sigurmarki sínu
Camarasa fagnar sigurmarki sínu vísir/getty
Aleksandar Mitrovic skoraði mikilvægt sigurmark í uppbótartíma í fallslag Fulham og Huddersfield. Það sama gerði Victor Camarasa fyrir Cardiff á King Power vellinum í Leicester. Watford og Newcastle gerðu jafntefli.

Leikur Fulham og Huddersfield var einn sá mikilvægasti í ensku úrvalsdeildina þessa umferðinna þrátt fyrir að taka ekki mestu athyglina þar sem um tvö lið í botnbaráttunni er að ræða.

Fyrir leikinn sat Huddersfield á botninum með 10 stig og Fulham sæti ofar með 11 stig. Því um sannkallaðan sex stiga leik að ráða sem gæti orðið mikilvægur þegar upp er staðið.

Þegar stefndi í markalaust jafntefli voru leikmenn Huddersfield aðeins of graðir í að ná sigurmarkinu og fóru of margir upp í sóknina. Fulham náði boltanum, komst í skyndisókn og Mitrovic skoraði framhjá Jonas Lössl eftir sendingu frá Ryan Sessegnon.

Lössl hafði fyrr í leiknum varið vítaspyrnu frá Aboubakar Kamara en Fulham tókst að skora og næla sér í stigin þrjú.

Það stefndi einnig í markalaust jafntefli í Leicester þar sem Aron Einar Gunnarsson og félagar í Cardiff voru í heimsókn.

Þegar í uppbótartíma var komið skoraði Victor Camarasa með góðu skoti fyrir utan teig og tryggði Cardiff fyrsta útisigurinn á tímabilinu.

Markið var nokkuð gegn gangi leiksins en það er ekki spurt um það, Camarsa kom boltanum í netið og Cardiff er komið fjórum stigum frá fallsæti.

Aron Einar spilaði allan leikinn fyrir Cardiff.

Abdoulaye Doucoure hefði átt að tryggja heimamönnum í Watford sigurinn gegn Newcastle þegar hann fékk frían skalla fjórum metrum frá marki á lokamínútum leiksins á Vicarage Road en skallinn fór framhjá markinu og liðin deildu stigunum.

Salomon Rondon hafði komið gestunum yfir í fyrri hálfleik úr fyrsta færi Newcastle í leiknum. Doucoure jafnaði þegar langt var liðið á seinni hálfleikinn.

Liðin skiptu því með sér stigunum. Watford er með 28 stig í 9. sæti og Newcastle með 18 í því 15.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira