Breytt fyrirkomulag á keppnistímabilinu í Crossfit tekur í fyrsta sinn gildi fyrir heimsleikana á næsta ári. Í stað undankeppna í heimsálfum verða sextán mót haldin víðsvegar um heim þar sem sigurvegari hvers móts fær keppnisrétt á heimsleikunum. Opna mótið verður þó áfram haldið eins og síðustu ár, þar sem 20 efstu komast inn á heimsleikana, sem og allir landsmeistarar í heiminum.
Mótshaldarar líta þó einnig til þess að mótið verði kjörið tækifæri til að efla íþróttina hér á landi og kynna enn betur stærstu stjörnurnar. Annie Mist Þórisdóttir og Katrín Tanja Davíðsdóttir hafa báðar tvívegis orðið heimsmeistarar í greininni og þá hafa Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir og Björgvin Karl Guðmundsson verið í fremstu röð um árabil. Björgvin Karl segir löngu tímabært að Íslandi fái stórt alþjóðlegt mót.
„Miðað við fólkið sem við eigum þá finnst mér að við höfum fengið litla athygli hér á landi. Það er því frábært að við skulum fá mót samkvæmt þessu nýja fyrirkomulagi, með fullt af áhorfendum og erlendum keppendum,“ segir Björgvin Karl og bætir við:
„Það þarf ekki endilega að nefna það hverjar stelpurnar eru hér á Íslandi en það þarf ennþá að útskýra hver ég er og hvað ég hef gert. Það þekkja mig ekki allir hérna en í Crossfit-heiminum er nafnið mitt mjög þekkt.“
Óvíst er hvort að íslensku stjörnurnar keppi á mótinu í maí en það mun ráðast af því hvenær og hvort það tryggir sinn farseðil á heimsleikana en Katrín Tanja telur að það sé mikill fengur fyrir Crossfit á Íslandi að hér verði stórt mót.
„Mér finnst þetta vera eins og þegar Anníe vann árið 2011,“ sagði Katrín Tanja. „Það vita ekki margir af þessu en allt í einu sjá þetta allir - og sjá að þetta er spennandi. Mér finnst líka mikilvægt að þetta er fyrir alla. Þetta er ekki bara það sem við erum að gera og bara þetta mót. Afi minn er til dæmis í Crossfit - það er hægt að skala þetta fyrir alla.“