Sport

Fimmfaldur Ólympíumeistari hættir 23 ára: „Tilbúin að sleppa við sársauka á hverjum degi“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Missy Franklin með eitt af fimm Ólympíugullum sínum.
Missy Franklin með eitt af fimm Ólympíugullum sínum. Vísir/Getty
Sundkonan Missy Franklin hefur synt sitt síðasta keppnissund þrátt fyrir að vera ekki búin að halda upp á 24 ára afmælisdaginn sinn.

Hún tilkynnti um endalok ferilsins í bréfi sem hún skrifaði og ESPN birti á vef sínum.





Missy Franklin var ein af mestu gullkálfum Ólympíuleikanna í London 2012 þar sem hún vann fern gullverðlaun í sundi en hún hefur verið að glíma við axlarmeiðsli síðan í apríl 2016.

Þegar Franklin fór fjórum sinnum upp á pall í London þá var hún aðeins sautján ára og áhugamaður. Hún vann sex gullverðlaun á HM árið eftir og var kosin íþróttakona ársins hjá Laureus árið 2014.

Axlarmeiðslin eiga mikinn þátt í því að hún segir þetta komið gott. Hún hefur veruið að glíma við þau í næstum því þrjú ár og að auki hefur hún átt í baráttu við þunglyndi og aðra andlega kvilla.

Missy Franklin skrifaði „kveðjubréf“ sem ESPN birti. „Ég fór að átta mig á því að minn stærsti draumur, stærri en að vinna Ólympíugull, var alltaf að verða mamma,“ skrifaði Missy Franklin.





Missy Franklin sagði í bréfinu sínu að sundið hafi verið hennar fyrsta ást og að fyrstu átján árin hafi verið fullkomin. Pressan var hinsvegar mikil fyrir Ólympíuleikanna í Ríó 2016 og axlarmeiðslin bættust síðan ofan á það.

„Ég hef opnað mig um það sem ég gekk í gegnum fyrir Ólympíuleikana 2016. Ég fann sársauka í öxlinni í hvert skipti sem ég æfði en var líka að glíma við þunglyndi, kvíða og svefnleysi. Ég æfði áfram þrátt fyrir allan þennan líkamlega og andlega sársauka og hélt höfðinu hátt,“ skrifaði Franklin.





„Þegar ég lít til baka þá var það mesta afrekið á mínum ferli að komast í gegnum þessa átta daga í Ríó,“ skrifaði Franklin.

Franklin vann sitt fimmta og síðasta Ólympíugull í Ríó en það vann hún með boðsundssveit Bandaríkjanna í 4 x 200 metra skriðsundi.

Franklin fór í aðgerð á báðum öxlum í janúar og febrúar 2017. Hún fór í gegnum allskonar sjúkrþjálfun og meðferðir í framhaldinu en ekkert hjálpaði.

„Það tók mig langan tíma að geta sagt þessi orð en ég er hætt. Ég er tilbúin að hætta núna. Ég er núna tilbúin að sleppa við sársauka á hverjum degi. Ég er tilbúin að verða eiginkona og seinna móðir,“ skrifaði Franklin.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×