Elísabet er stödd í kínversku borginni Dunhuang og býður eftir því að allir hlaupararnir komi í mark en þeir þurfa að vera komnir á fimmtudagsnótt og eru þá 150 klukkutímar frá því hlaupið hófst.
Hún var afar ánægð með árangurinn og snortin yfir allri athyglinni sem hlaupið hefur fengið, þegar Vísir náði tali af henni.

Góbí-eyðimerkurhlaupið er 409 kílómetrar og segir Elísabet mikilvægt að hafa trú á sér og verkefninu allan tímann í slíku hlaupi þrátt fyrir að það komi erfiðir kaflar inná milli.
„Það skiptast á góðir og vondir kaflar í svona löngu hlaupi og því mikilvægt að minna sig á að slæmi kaflinn gengur yfir og gæta sín á að neikvæðnin nái ekki yfirhöndinni. Maður fer kannski að finna einhvers staðar til og þá þarf að minna sig á að verkurinn fer yfirleitt. Ég hvatti mig upphátt áfram á erfiðari stundum og minnti mig á að það væri stutt í næstu drykkjarstöð en alls voru 32 tímatökustöðvar á hlaupinu þar sem hægt var að fá að drekka og tíu hvíldarstöðvar,“ segir Elísabet.

„Það var mögnuð upplifun að vera svona lengi þarna úti ein með sjálfri sér. Landslagið er ótrúlegt og hásléttan mjög sértök. En þarna er líka mikil auðn þar sem gljúfur og gil skiptast á. Undirlagið er mjög fjölbreytt, harður og mjúkur sandur skipast á, grýttur árfarvegur og svo fínustu stígar. Meirihlutann af tímanum var ég að hugsa um sjálft hlaupið og hvert ferðinni væri næst heitið en ég notaði GPS staðsetningartæki til að fara milli stöðva. Maður var alltaf að pæla í hvað væri framundan eða að skoða í kringum sig. Hitinn í eyðimörkinni sem var um 25 gráður yfir daginn fór vel í mig en stundum var mikið ryk í loftinu. Tvær nætur voru virkilega krefjandi en þá fór kuldinn í um mínus tíu gráður með vindkælingu. Þarna var ég í um fjögur þúsund metrum yfir sjávarmáli. Ég þurfti að klæða mig í öll fötin mín þessar nætur og er orðin sérfræðingur í að vinna með hin ýmsu lög af fötum,“ segir Elísabet sem var með um fimm kílóa bakpoka á sér með búnaði og fötum.
Aðspurð um hvort hún sé farin að huga að næsta stóra hlaupi segir hún ekki svo vera.
„Það þarf að taka hvíld í ákveðinn tíma eftir svona hlaup og á meðan finnst mér ekkert endilega gott að vera búin að skipuleggja næsta hlaup. Það er betra að leyfa hlaupahungrinu að koma yfir mann. En ég kom vel úthvíld í þetta hlaup og verð því fljótari að jafna mig en ella. Það kemur svo bara í ljós hvert haldið verður næst,“ segir ofurkonan Elísabet að lokum.