Lífið

Ljótar og skrýtnar kartöflur fá nýtt líf

Guðný Hrönn skrifar
Viðar Reynisson forðar skrýtnum kartöflum frá því að lenda í ruslatunnunni.
Viðar Reynisson forðar skrýtnum kartöflum frá því að lenda í ruslatunnunni. VÍSIR/EYÞÓR
Mikið magn kartaflna sem þykja ljótar, skrýtnar í laginu eða of stórar lendir í ruslinu hjá kartöflubændum. Viðar Reynisson sá sér leik á borði þegar hann komst að því og framleiðir nú alíslenskar kartöfluflögur undir vörumerkinu Ljótu kartöflurnar.

„Þetta er kartöfluflögur sem framleiddar eru úr kartöflum sem hefðu annars lent í ruslinu,“ segir Viðar, framkvæmdastjóri Ljótu kartaflnanna, spurður út í snakkið. „Hugmyndin kviknaði fyrir löngu síðan en upphaflega ætlaði ég bara að gera íslenskar kartöfluflögur úr íslensku hráefni, það hefur aldrei verið gert hérna heima. En svo þegar ég fór að prófa mig áfram þá sá ég að það er óheyrilegt magn kartaflna sem fer til spillis vegna útlitsgalla.“

Viðar bendir þá á að það felist mikil mengun í því að flytja inn erlent snakk. „Snakk er umfangsmikil vara sem verið er að flytja inn enda inniheldur hver poki mikið loft. Og snakk er vel hægt að búa til hér heima. Umhverfisþátturinn er augljós.“

Boðið er upp á þrjár tegundir af kartöflum.Vísir/Eyþór

Skemmtilegir kartöflukarakterar

Spurður út í hvort hann sé samkeppnishæfur við erlenda snakkframleiðendur hvað varðar verð segir Viðar: „Nei, ég er ekki samkeppnishæfur í verði, ekki á meðan framleiðslan er lítil eins og hún er í dag. En pælingin er að fá neytendur til að vanda valið. Núna erum við að einblína á að selja Ljótu kartöflurnar í litlum verslunum, á börum, veitingastöðum og hótelum.

Umbúðir Ljótu kartaflnanna vekja eftirtekt en snakkpokarnir eru glærir og skreyttir skemmtilegum fígúrum. 

„Þetta er glært plast sem er svo prentað á. Plastið er glært, bæði til að það sé hægt að sjá vöruna en líka til að einfalda flokkun. Allt annað snakk er í álþynnupokum sem er úr einhverri plastog álblöndu. Karakterarnir á umbúðunum eiga svo allir sína sögu. Í framhaldinu munum við leika okkur meira með þá í markaðssetningu,“ segir Viðar spenntur fyrir framhaldinu

 

Af hverju lenda kartöflur í ruslunu hjá kartöflubændum?

Þeim hefur verið hent þar sem neytendur kjósa frekar minni kartöflur. Þær eru kannski þægilegri í suðu og aðra matreiðslu og þar af leiðandi vilja verslanir ekki þær stóru. Sömuleiðis kaupa neytendur síður þær kartöflur sem eru óvenjulegar í útliti og lögun. Við megum því hugsa okkur betur um þegar við veljum kartöflur og annað grænmeti,“ segir Viðar sem vill vekja fólk til umhugsunar um matarsóun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.