Lífið

Markmiðið að kynna alvöru street food

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Box verður á bílastæðinu fyrir aftan Rúmfatalagerinn. Svæðið mun einkennast af hráu útliti.
Box verður á bílastæðinu fyrir aftan Rúmfatalagerinn. Svæðið mun einkennast af hráu útliti. Vísir/vilhelm
„Ég var með Búlluna úti í London – þá vorum við oft á svona „street food“ hátíðum bæði í London og Amsterdam. Ég hef síðan alltaf gengið með það í maganum að gera svona svipað hérna á klakanum. Þar sem þróunin í íslenskum matarvenjum hefur verið góð á síðustu árum ákvað ég bara að hjóla í þetta og taka þetta alla leið. Ég talaði sem sagt bara við Reykjavíkurborg og kynnti þetta fyrir þeim – þau tóku gríðarlega vel í þetta og við ákváðum að fara í samstarf ásamt Reitum sem eiga lóðina í Skeifunni. Við ætlum að keyra þetta í gang,“ segir Róbert Aron Magnússon, Robbi Kronik.

Hann er að fara að byggja upp Box – matarvagna og götumarkað í Skeifunni þar sem „pop up“ verslanir og „street food“ vagnar selja mat og tísku, ásamt því að þarna mun verða bar, skjár sem sýnir leiki í heimsmeistaramótinu í knattspyrnu og svæði þar sem tónlistarmenn geta leikið listir sínar fyrir svöngum og þyrstum lýðnum.



Útvarpsmennirnir Róbert Aron Magnússon og Benedikt Freyr Jónsson.
„Við ætlum að keyra þetta frá fimmtudögum til sunnudaga – Ísland er að spila þarna einn þriðjudag og þá verður opið, en það verður líka fyrirvari með veðurspána: ef það kemur einhver hitabylgja frá mánudegi til miðvikudags munum við flauta inn liðið og hjóla í partí. Á sunnudögum yrði svo fjöldskyldustemming.“

Ætlunin er að Box verði starfandi frá 1. júní til 29. júlí. Markaðurinn verður í Skeifunni á bílastæðinu við Rúmfatalagerinn. Útlitið á að vera hrátt; gámar, pallettur og vagnar.

„Fókusinn er á matinn og þetta „street food“ konsept, við ætlum að biðja alla að leggja metnað í að gera alvöru „street food“. Gera þetta einfalt, verðinu stillt í hóf þannig að þú getir verið að smakka þrjá-fjóra rétti með vinunum. Síðan er hægt að deila þeim í stemmingu og góðri tónlist.“

Box óskar eftir umsóknum á póstfangið info@rvkstreetfood.is frá aðilum sem hafa áhuga, hvort sem það er að vera með matarbás eða „pop up“ verslun.

„Við erum búnir að ræða við þó nokkra aðila sem eru til, en þarna verður pláss fyrir um 15-20 staði, þetta verður þétt – en það verður hægt að koma þarna inn eina helgi eða einn dag, við erum bara að stilla þessu upp. Þetta er tilraunaverkefni sem við ætlum að reyna að gera sem skemmtilegast. Svo er auðvitað markmiðið að kynna fyrir Íslendingum alvöru „street food.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×