Á bókunarsíðu hótelsins er illmögulegt að bóka herbergi eftir 17. september. Starfsmaður Oddsson staðfesti í samtali við Vísi að lokunin stæði til þann 16. september.
Ætla að gjörbreyta hótelinu
Margrét Ásgeirsdóttir fjárfestir, sem á helmingshlut í félaginu JL Holding, eiganda JL-hússins, í gegnum félag sitt S9 ehf. sagði ekki tímabært að greina frá því hvaða breytingar væru í farvatninu. Starfsfólki hefur þó verið greint frá því að þýskir aðilar ætli að gera heilmiklar breytingar á húsnæðinu. Þar verði þó áfram rekið hótel.Vísi er ekki kunnugt um hve mörg gistirými er á hótelinu en upphaflega var sótt um leyfi fyrir 185 gistirými eða rúm. Herbergin eru á 4. og 5. hæð hússins en á 2. og 3. hæð er Myndlistarskólinn í Reykjavík með starfsemi sína.
Móttaka og opið rými með bar var að finna á jarðhæð og sömuleiðis veitingastaðinn Bazaar. Hann var rekinn þar til í janúar á þessu ári þegar rekstrinum var hætt.
Karókí kveðjustund
Hótelið var opnað í maí 2016 en um er að ræða hótel með andrúmslofts farfuglaheimilis eins og komist er á orði á heimasíðunni. Meðal þeirra sem komu að hótelinu var knattspyrnukappinn Arnar Gunnlaugsson fyrrnefnd Margrét Ásgeirsdóttir. Þau eru einu eigendur hótelsins í dag.Áhugafólki um karókí gæti brugðið nokkuð við tíðindin en á jarðhæð Oddsson var að finna karókíherbergi sem var vinsælt til útleigu. Síðasti möguleiki á að bóka herbergið er 16. september.
Samkvæmt heimildum Vísis er til skoðunar að flytja starfsemi Oddsson í annað hótelrými í borginni.
Fréttin hefur verið uppfærð þar sem ranglega kom fram að Tryggvi Þór Herbertsson hefði verið á meðal eiganda eins og fram kom. Hann kom að rekstri veitingastaðnum Bazaars um tíma en var aldrei eigandi í hótelinu að sögn Margrétar Ásgeirsdóttur. Beðist er velvirðingar á þessari rangfærslu.