Lífið

Páll Bergþórsson fór í fallhlífarstökk: „Reynir meira á mann að ganga 100 metra“

Atli Ísleifsson skrifar
Páll stökk úr þriggja kílómetra hæð en flugvélin tók á loft frá Hellu.
Páll stökk úr þriggja kílómetra hæð en flugvélin tók á loft frá Hellu. Mynd/Baldur Pálsson
Páll Bergþórsson, veðurfræðingur og fyrrverandi veðurstofustjóri, fór í fallhlífarstökk í fyrsta sinn fyrr í dag. Páll er 95 ára gamall og kveðst mjög ánægður með að hafa látið vaða.

„Ég var að prófa þetta í fyrsta skipti. Þó ég hafi nú eiginlega lifað á loftinu allan tímann sem veðurfræðingur þá hef ég aldrei farið í loftköstum fyrr en núna. Ég mátti til með að prófa það,“ segir Páll í samtali við Vísi.

Páll stökk úr flugvél sem tók á loft frá Hellu og segir hann stökkið hafa verið ljómandi skemmtilegt og miklu þægilegra og notalegra en hann hafði fyrirfram búist við. „Þetta reynir ekkert á mann. Það reynir meira á mann að ganga 100 metra. Það var afskaplega skemmtilegt að finna loftið leika um sig og sjá jörðina mæta manni.“

Hann stökk úr þriggja kílómetra hæð og segist hafa náð 200 kílómetra hraða á leiðinni niður áður en fallhlífin var opnuð. „Maður fann samt eiginlega ekkert fyrir því. Það var mikill vindur, en þetta var ljómandi skemmtilegt.“

En hvað fær 95 ára gamlan mann til að prófa fallhlífarstökk í fyrsta skipti?

„Það var tilviljun. Það voru menn sem ég þekki, sonur minn sem fór í þetta. Þá datt mér þetta í hug. Ég vissi ekki að hægt væri að fá svona þjónustu hér. Þegar ég vissi það þá var þetta ákveðið.“

Nú hef ég ekki prófað fallhlífarstökk. Mælir þú með þessu?

„Ég mæli með því.“

Á ég ekki að bíða með það þar til að ég verð 95 ára?

„Nei, þú skalt gera það heldur fyrr.“












Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.