Lífið

Söngvari Arcade Fire þeytir skífum á Húrra annað kvöld

Stefán Árni Pálsson skrifar
Win Butler á sviði.
Win Butler á sviði. vísir/getty
DJ Windows 98 mun þeyta skífum á Húrra annað kvöld en það er enginn annar er Win Butler úr hljómsveitinni Arcade Fire.

Arcade Fire hélt tónleika í Laugardalshöllinni á þriðjudagskvöldið og það við mikla hrifningu íslenskra aðdáenda.

„Við erum með hann Win Butler úr Arcade Fire frá hálft eitt til hálf þrjú annað kvöld,“ segir Geoffrey Þór Huntington-Williams, framkvæmdastjóri Húrra, í samtali við Vísi.

Thorsteinn Stephensen, hjá Hr. Örlygi sem flutti inn Arcade Fire, kom Húrramönnum í samband við Butler og þannig kom þetta til. 

Geoffrey Þór Huntington-Williams, framkvæmdastjóri Húrra.vísir/anton
„Ég er ekki alveg viss hvort allir í bandinu sé enn hér á landi en líklega bróðurparturinn. Það verður rífandi stemning og fjör annað kvöld.“

Geoffrey segir að það sé oft gaman að sjá tónlistarmenn bregða sér í annan gír.

„Hann mun eflaust spila lög sem hann er sjálfur að hlusta á og jafnvel eitthvað með sjálfum sér. Mér skilst að hann geri þetta töluvert og veit að Butler á til að mynda bar í Montreal.“

Húrra tekur 300 manns og býst Geoffrey við að húsið verði troðfullt annað kvöld.

„Við erum með tónleikar með Árstíðum fyrr um kvöldið og svo fer Butler í gang eftir miðnætti. Ég verð að hvetja fólk að mæta snemma og frítt verður inn á DJ-settið hjá Butler.“

Þess má geta að Butler fór ekki í sturtu áður en hann skellti sér í heita pottinn í Neslauginni í gærkvöldi eins og Andri Ólafsson greinir frá á Twitter. Sennilega hefur hann farið í sturtu eftir sundferðina. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×