Fastir pennar

Vonbrigði

Kristín Þorsteinsdóttir skrifar
Skýrslan um rekstrarumhverfi fjölmiðla, sem lengi hefur verið beðið eftir, er vonbrigði. Ekki síður svör menntamálaráðherra. Enn á að setja málið í nefnd.

Ráðherra kallar það „að setja strax af stað frekari stefnumótun innan ráðuneytisins um stöðu fjölmiðlunar hér á landi. Þar verða áhrifin metin af fyrirhuguðum aðgerðum. Leitað verður eftir samvinnu og samstarfi við hagsmunaaðila, stjórnmálaflokka og almenning. Markmiðið er að ná breiðri sátt um starfsemi fjölmiðla og hugsanlega aðkomu ríkisins að lýðræðis- og menningarhlutverki þeirra“.

Í erindisbréfi nefndarinnar segir meðal annars að henni sé ætlað að gera tillögur um breytingar á lögum og aðrar nauðsynlegar aðgerðir til að bæta rekstrarumhverfi og tryggja að hér á landi fái þrifist fjölbreyttur markaður frjálsra fjölmiðla, með tilliti til mikilvægs hlutverks þeirra fyrir lýðræðisþróun og samfélagsumræðu.

Nefndin var skipuð hagsmunaaðilum og fulltrúum stjórnmálaflokka. Í skýrslunni er fjallað um stöðu fjölmiðlunar á Íslandi og í löndunum í kringum okkar. Hagsmunaaðilar fengu tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Nú virðist eiga að endurtaka þá vinnu.

Enn virðist eiga að draga málið á langinn, óvíst hversu lengi. Ekkert er í sjónmáli sem bendir til þess að breyting verði á starfsumhverfi fjölmiðla í næstu framtíð.

Nefndin kemur með nokkrar tillögur. Sumar líta ágætlega út, þótt ljóst sé að mikil andstaða verði við það eitt að leyfa áfengisauglýsingar. Annað er vanhugsað, eins og t.d. lækkun virðisaukaskattsþreps á áskriftarmiðla. Er þar ekki verið að mismuna miðlum eftir rekstrarformi? Væri ekki nær að lækka skattheimtu af auglýsingasölu?

Þegar talað er um að ríkisrisinn fari af auglýsingamarkaði, er langur kafli um hvernig megi bæta honum upp tekjumissinn. Ekki er nefnt, að við brotthvarfið af auglýsingamarkaði verður hagræðing, því ekki kostar lítið að berjast um bitana í bullandi samkeppni á auglýsingamarkaði.

Samkeppni við risa sem getur endalaust sótt í almannasjóði verður aldrei heilbrigð nema skýrar reglur séu settar.

Markmiðið, að jafnvægi þurfi að ríkja á fjölmiðlamarkaði, er litlu nær eftir lesturinn. Sjálfstætt starfandi fjölmiðlum eru ekki sköpuð réttlát skilyrði á meðan ríkisrisi þrengir að einkamiðlum. Ríkisútvarpið þarf að skerpa sérstöðu sína og skilgreina hlutverk sitt, í orði og á borði. Er ekki kominn tími til að gera þá kröfu til RÚV að fyrirtækið sé rekið með hagsýni að leiðarljósi? Helstu fréttirnar sem berast þaðan eru um fjölgun í yfirmannaskaranum sem fyrir er.

Við þurfum fjölbreytni. Yfirvöld hygla Ríkisútvarpinu um of. Nýja skýrslan og nýframlögð fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar gefa ekki til kynna að breyting verði á.

Engu er líkara en að stjórnarherrarnir átti sig ekki á þessu. Þeir bregðast einkareknum fjölmiðlum æ ofan í æ með dekri sínu við ríkisfjölmiðilinn – þvert á fyrirheit margra þeirra um að standa vörð um frjálsa fjölmiðlun, til viðhalds lýðræðinu eins og sagt er á tyllidögum. Þetta er afleitt því þróttmiklir og fjölbreyttir fjölmiðlar tryggja lýðræðið. Löggjafanum ber að standa vörð um þróttmikla og fjölbreytta fjölmiðla.






×