Viðskipti innlent

Skiptastjóri verslana Víðis ætlar að selja vörur á hálfvirði

Birgir Olgeirsson skrifar
Verslanir Víðis voru í eigu Eiríks Sigurðarsonar, kaupmanns og eiginkonu hans Helgu Gísladóttur.
Verslanir Víðis voru í eigu Eiríks Sigurðarsonar, kaupmanns og eiginkonu hans Helgu Gísladóttur. Vísir/Jóhann K. Jóhannsson
Skiptastjóri þrotabús Víðis hefur ákveðið að opna tvær verslanir þrotabúsins og selja allar vörur á hálfvirði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skiptastjóranum Valtý Sigurðssyni sem segir verslunina í Garðabæ verða opnuð klukkan 16 í dag en verslanir í Skeifunni og Garðabæ verða svo opnar frá klukkan 12 á morgun, föstudag.

Greint var frá því í fréttum Stöðvar 2 í vikunni að verslunum Víðis hefði verið lokað fyrirvaralaust í síðustu viku, en lögfræðingur stéttarfélagsins VR sagði ekkert hafa bent til þess að verslunarreksturinn væri á leiðinni í þrot.

Verslanir Víðis eru í eigu Eiríks Sigurðarsonar, kaupmanns og eiginkonu hans Helgu Gísladóttur en fyrsta verslunin var opnuð árið 2011 en þar til á fimmtudag í síðustu viku voru fimm verslanir í rekstri.

Öllum verslununum var skellt í lás á fimmtudagskvöld eftir fund eigenda með millistjórnendum, en þeim var tjáð að lokunin væri tímabundin. Almennir starfsmenn fengu hins vegar ekkert að vita fyrr en í gær þegar þeim barst tölvupóstur barst frá fyrirtækinu um að það væri á leið í gjaldþrot. Í gluggum verslananna var viðskiptavinum sagt að „Lokað sé vegna breytinga.“

Rekstur Víðis hefur gengið erfiðlega á undanförnum árum vegna aukinnar samkeppni á matvörumarkaði. Á árinu 2015 skilaði verslunin 13 milljón króna tapi en eigendur náðu að snúa tapi yfir í 49 milljóna króna hagnað á árinu 2016. Í október í fyrra var tilkynnt að eigendurnir hygðust selja verslunarreksturinn en ekkert hefur orðið af því.

Um áttatíu starfsmenn unnu hjá Víði í misháu starfshlutfalli. Fréttastofan ræddi við nokkra starfsmenn fyrirtækisins í vikunni sem furðuðu sig á framkomu eigenda.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×