Lífið

Kanye West kveðst hafa verið notaður til að dreifa pólitískum skilaboðum

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
West hyggst draga sig í hlé í hinni pólitísku umræðu og þess í stað einbeita sér að listinni.
West hyggst draga sig í hlé í hinni pólitísku umræðu og þess í stað einbeita sér að listinni. Getty/Ron Sachs
Bandaríski rapparinn Kanye West, sem nú gengur undir nafninu „Ye“, segist hafa verið notaður til að dreifa boðskap sem hann trúir ekki á. Hann hafi verið blekktur en nú sé hann með galopin augun.

Þetta sagði rapparinn á Twitter-síðu sinni en hann ætlar að draga sig í hlé í umræðu um stjórnmál og einbeita sér að sköpun.

Það olli miklu fjaðrafoki þegar rapparinn talaði um aðdáun sína á Donald Trump, Bandaríkjaforseta, í upphafi mánaðar. Hann setti upp derhúfu með áletruninni „Gerum Bandaríkin glæst á ný,“ og birti á samfélagsmiðlum en setningin er slagorð Trumps í forsetakosningunum 2016.

Gerir grein fyrir skoðunum sínum

West hætti á öllum samskiptamiðlum í kjölfarið en nú er hann kominn aftur á kreik. Í röð tísta sem hann birti í kvöld útskýrði hann fyrir fylgjendum sínum, í eins konar stefnuyfirlýsingu, það sem hann raunverulega stendur fyrir og trúir á.

„Ég er hlynntur því að skapa störf og tækifæri fyrir fólk sem þarf mest á að halda. Ég styð umbætur á refsivörslukerfinu, ég er hliðhollur byssulöggjöf sem einkennist af almennri skynsemi og mun gera heiminn okkar öruggari,“ sagði West.

„Ég styð þá sem hætta lífi sínu til að þjóna og vernda okkur og ég er hlynntur því að draga fólk til ábyrgðar sem misnotar valdheimildir sínar.“

West sagðist jafnframt trúa á ást og samkennd með hælisleitendum og foreldrum sem reyna að vernda börnin sín fyrir ofbeldi og stríði.

„Ég vil koma á framfæri þökkum til fjölskyldunnar minnar, ástvina og samfélagsins fyrir að styðja RAUNVERULEGAR skoðanir mínar og sýn minni til að bæta heiminn,“ sagði West sem ætlar nú að halda sig til hlés í hinni pólitísku umræðu og einbeita sér að því að vera listamaður.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.