Sport

Lyfti yfir heimsmetsþyngd

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Íslandsmótið í lyftingum var haldið í Íþróttamiðstöðinni Varmá í Mosfellsbæ um helgina. Þar voru slegin Íslandsmet og var Norðurlandamet nálægt því að falla.

Birna Aradóttir úr Lyftingafélagi Reykjavíkur bætti Íslandsmetið í U20 ára flokki bæði í snörun og jafnhendingu. Hún snaraði 80kg og jafnhenti 90kg. Hún endaði mótið stigahæst kvenna með 231 stig. Birna var yfir Norðurlandametinu í -58kg flokki í þessum aldurshópi, sem er 78kg. Hún vigtaðist þó inn í mótið um 59kg og náði því ekki að fella það met.

Liðsfélagi hennar úr LFR, Bjarmi Hreinsson, var stigahæstur í karlaflokki. Hann setti Íslandsmet karla í -94kg flokki þegar hann jafnhenti 161kg. Hann snaraði einnig 131kg í mótinu. Bjarmi er því orðinn Íslandsmethafi á öllum sviðum í sínum þyngdarflokki en hann setti Íslandsmet í snörun og samanlögðu á Reykjavíkurleikunum í janúar.

Lyftingafélag Kópavogs vann liðakeppnina með sjö stigum og varð því Íslandsmeistari liða.

Þá setti Hrund Scheving öldungamet í flokki 35-39 ára og 40-44 ára þegar hún jafnhenti 93kg en skráð heimsmet í flokki 40 ára og eldri er 92,5kg og lyfti hún því yfir heimsmetið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×