Sport

Stöð 2 Sport sýnir heimsmeistaramótið í pílukasti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rob Cross er ríkjandi heimsmeistari í pílukasti.
Rob Cross er ríkjandi heimsmeistari í pílukasti. Vísir/Getty
Stöð 2 Sport mun sýna frá heimsmeistaramótinu í pílukasti, PDC World Darts Championship, yfir hátíðarnar. Sýnt verður daglega frá mótinu sem hefst 13. desember og lýkur 1. janúar.

Um mikið sjónarspil er að ræða en beinar útsendingar frá mótinu hafa vakið mikla athygli í Evrópu, ekki síst Bretlandi og á Norðurlöndunum.

Englendingurinn Rob Cross er ríkjandi heimsmeistari en ein skærasta stjarna pílukastsins, Hollendingurinn Michael van Gerwen, var meistari árið á undan. Hann hefur unnið tvo heimsmeistaratitla og er efstur á heimslista.

Mótið fer fram í Alexandra Palace í Lundúnum en keppt með útsláttarfyrirkomulagi. 96 keppendur hefja leik og er efstu 32 á heimslista styrkleikaraðað inn í mótið. Keppt er daglega þar til tveir standa eftir í úrslitaleik sem fer fram á nýársdag.

Verðlaunafé hefur verið aukið með hverju ári. Í fyrra var 1,8 milljónum punda veitt samtals í verðlaunafé og fékk sigurvegarinn 400 þúsund pund. Í ár hefur heildarverðlaunafé verið hækkað í 2,5 milljónir punda, jafnvirði 410 milljóna króna, og fær sigurvegarinn hálfa milljón punda, jafnvirði 82 milljóna króna, í sinn hlut.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×