Viðskipti innlent

Íslendingar draga úr utanlandsferðum

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá Keflavíkurflugvelli.
Frá Keflavíkurflugvelli. Vísir/vilhelm
Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru um 231 þúsund í júlímánuði, eða um 47 þúsund færri en í júlí árið 2018. Fækkunin milli ára nemur sautján prósentum að því er fram kemur á vef Ferðamálastofu. Hefur fækkun verið alla aðra mánuði frá áramótum, í janúar fækkaði brottförum um 5,8%, í febrúar um 6,9%, í mars um 1,7%, í apríl um 18,5%, um 23,6% í maí og 16,7% í júní.

Bandaríkjamenn voru fjölmennastir í júlí eða 28,3% brottfara og fækkaði þeim um 36,2% milli ára.

Frá áramótum hefur um 1,1 milljón erlendra farþega farið frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll sem er 13,4% fækkun miðað við sama tímabil í fyrra.Af einstaka þjóðernum voru flestar brottfarir í júlí tilkomnar vegna Bandaríkjamanna sem fyrr segir. Þjóðverjar voru í öðru sæti en brottfarir þeirra voru 19 þúsund talsins eða 7,9% færri en í júlí árið áður.

Í þriðja sæti voru brottfarir Frakka, um tólf þúsund talsins og fækkaði þeim um 3,9% milli ára.Þar á eftir fylgdu síðan brottfarir Kínverja (4,9% af heild), Breta (4,9% af heild), Pólverja (4,4% af heild), Kanadamanna (4,1% af heild), Dana (3,2% af heild), Spánverja (3,0% af heild) og Svía (2,5% af heild).

Um 60 þúsund Íslendingar fóru utan í júlí í ár eða 8,9% færri en í júlí 2018. Frá áramótum hafa um 367 þúsund Íslendingar farið utan eða 5,6% færri en á sama tímabili í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×