Lífið

Höfðingjar í Hörgárdal og hvít hauskúpa djáknans

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Möðruvöllum í Hörgárdal.
Frá Möðruvöllum í Hörgárdal. Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Fyrsti ráðherra Íslands, Hannes Hafstein, rithöfundurinn Jón Sveinsson, Nonni, skáldið Davíð Stefánsson frá Fagraskógi; þetta eru allt nöfn sem tengjast Möðruvöllum í Hörgárdal, en merk saga þessa höfuðbóls er meðal efnis í þættinum „Um land allt“ á Stöð 2 á mánudagskvöld. 

Möðruvellir voru helsta valdamiðstöð landsins um aldir og í reynd höfuðstaður Norðurlands þegar amtmenn Danakonungs sátu staðinn, þeirra á meðal Bjarni Thorarensen skáld. Þar var munkaklaustur fyrir siðaskipti og síðar Möðruvallaskóli, forveri Menntaskólans á Akureyri.

Horft heim til Myrkár í Hörgárdal.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Myrká er önnur fræg jörð í Hörgárdal en með dimmari sögu; um djáknann á Myrká, sem ásótti Guðrúnu forðum.

Djákninn drukknaði í Hörgá á leið til fundar við ástkonu sína en gekk aftur og gat því ekki sagt kristilegt nafn hennar. Því mælti hann „Garún, Garún," þegar þau riðu saman út í tunglskininu og hún sá í hvíta hauskúpuna.

Á Þelamörk eru grunnskóli og íþróttamiðstöð Hörgarsveitar, sem og skrifstofa sveitarfélagsins.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Hörgdælir nútímans verða þó í forgrunni þáttarins en þar hittum við fjárbændur, kúabændur og hrossabændur en einnig fulltrúa vaxandi hóps sem starfar á Akureyri en velur að búa í sveitinni.

Hér má sjá brot úr þættinum, sem er á dagskrá Stöðvar 2 klukkan 19.10 á mánudagskvöld:


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.