City bikarmeistari eftir stórsigur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Leikmenn Mancheseter City fagna
Leikmenn Mancheseter City fagna vísir/getty
Manchester City er enskur bikarmeistari og fyrsta karlaliðið í sögunni til þess að vinna ensku þrennuna eftir öruggan sigur á Watford í bikarúrslitaleiknum á Wembley í dag.

Leikurinn var mjög fjörugur strax frá upphafi og eftir tuttugu mínútna leik vildi Watford tvisvar fá vítaspyrnu á stuttum tíma. Roberto Pereyra féll í teignum og stuttu seinna hafnaði skot Abdoulaye Doucoure í hendinni á Vincent Kompany að mati Watfordmanna. Kevin Friend dæmdi þó ekki víti.

Stuttu seinna, á 26. mínútu, kom fyrsta mark leiksins. Það gerði hinn spænski David Silva með skoti sem átti viðkomu í fæti Kiko Femenia.

Watford fékk færi á því að jafna fljótu eftir mark Silva en Ederson varði vel í markinu.

Áður en hálfleikurinn var úti náði Manchester City að koma öðru marki í leikinn, Bernardo Silva átti stórbrotna sendingu inn í hlaupið hjá Gabriel Jesus sem setti boltann fyrir markið. Þar var Raheem Sterling mættur og skoraði af stuttu færi. Staðan í hálfleik var 2-0 fyrir City.

Watford fékk góð færi til þess að komast aftur inn í leikinn snemma í seinni hálfleik en nýtti þau ekki. Í staðinn gengu leikmenn City frá honum.

Kevin de Bruyne, sem hafði komið inn á sem varamaður fyrir Riyad Mahrez, skoraði mikilvæga þriðja markið á 61. mínútu. Sjö mínútum seinna skoraði Gabriel Jesus eftir sendingu frá de Bruyne.

Watford reyndi að sækja, það var það eina í stöðunni fyrir þá, og þar með opnaðist pláss sem leikmenn City nýttu sér og refsuðu grimmt.

Raheem Sterling bætti við tveimur mörkum undir lok leiksins til þess að ná sér í þrennu. Varnarmenn Watford vilja líklega gleyma þessum leik sem fyrst, sóknarmenn City sundurspiluðu þá trekk í trekk.

Þrenna Sterling var sú fyrsta í bikarúrslitaleik síðan árið 1953.

City náði ekki að gera þjáningu Watford enn verri, Friend flautaði leikinn af áður en fleiri mörk voru skoruð, lokaniðurstaðan 6-0 sigur Manchester City og bikarinn í þeirra höndum.

Þetta er sjötti bikartitillinn í sögu Manchester City, sá fyrsti síðan árið 2011. Nú er City Englandsmeistari, bikarmeistari og deildarbikarmeistari og handhafi allra þriggja titlanna sem í boði eru á Englandi. Aldrei áður hefur karlalið unnið alla þrjá titlana á sama tímabilinu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira