Íslenski boltinn

Sextán liða úrslitin hefjast í kvöld: Vestri ætlar sér sigur í Grindavík

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Grindvíkingar fá Vestramenn í heimsókn.
Grindvíkingar fá Vestramenn í heimsókn. vísir/daníel þór
Sextán liða úrslit Mjólkurbikars karla hefjast í kvöld með þremur leikjum.

Í Grindavík taka heimamenn á móti 2. deildarliði Vestra. Bjarni Jóhannsson, þjálfari Vestra, mætir þar á sinn gamla heimavöll en hann stýrði Grindavík á árunum 2002-03. Leikurinn hefst klukkan 18:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

„Mér líst ljómandi vel á leikinn á morgun. Allir eru gríðarlega spenntir að fara til Grindavíkur. Það verður verðugt verkefni fyrir okkur að mæta liði í Pepsi Max-deildinni,“ sagði Samúel Sigurjón Samúelsson, formaður meistaraflokksráðs Vestra, í Sportpakkanum á Stöð 2 í gær.

„Við förum til Grindavíkur til að vinna. Það er bara þannig. Stefnan er að komast í 8-liða úrslit.“





Klukkan 18:00 mætast Víkingur R. og KA á Eimskipsvellinum í Laugardal. Þetta er einn þriggja leikja milli liða í Pepsi Max-deildinni í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins.

Í annað sinn á sex dögum mætast grannliðin Keflavík og Njarðvík. Þau gerðu markalaust jafntefli í Njarðvík í 4. umferð Inkasso-deildarinnar á fimmtudaginn. Leikur liðanna á Nettóvellinum í Keflavík í kvöld hefst klukkan 19:15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.

Einn leikur verður á morgun. Klukkan 17:00 mætast ÍBV og Fjölnir á Hásteinsvelli.

Sextán liða úrslitunum lýkur svo með fjórum leikjum á fimmtudaginn. Völsungur, sem er í 2. deild, tekur á móti KR, topplið Pepsi Max-deildarinnar, ÍA, sækir FH heim, Breiðablik og HK mætast í Kópavogsslag og í Laugardalnum tekur Þróttur R. á móti Fylki.



16-liða úrslit Mjólkurbikars karla28. maí:

18:00 Grindavík - Vestri (Stöð 2 Sport)

18:00 Víkingur R. - KA

19:15 Keflavík - Njarðvík (Stöð 2 Sport 2)

29. maí

17:00 ÍBV - Fjölnir

30. maí

14:00 Völsungur - KR (Stöð 2 Sport 2)

16:00 FH - ÍA (Stöð 2 Sport)

19:15 Breiðablik - HK (Stöð 2 Sport)

19:15 Þróttur R. - Fylkir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×