Lífið

Fyrirfór sér morguninn sem þau áttu að flytja í nýju íbúðina

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mariam Siv Vahabzadeh og dóttir hennar eru meðal viðmælenda 2. þætti af "Viltu í alvöru deyja?" á Stöð 2 í kvöld.
Mariam Siv Vahabzadeh og dóttir hennar eru meðal viðmælenda 2. þætti af "Viltu í alvöru deyja?" á Stöð 2 í kvöld.
Það var laugardagsmorgunn í maí árið 2005. Hefði átt að vera hamingjuríkur dagur í lífi ungrar fjölskyldu í Reykjavík. Mariam Siv Vahabzadeh og unnusti hennar ætluðu að flytja inn í nýju íbúðina sína ásamt ellefu mánaða gamalli dóttur sinni. En það fór á annan veg.

Unnustinn fyrirfór sér þennan morgunn og eftir sat Mariam tvítug, með dóttur þeirra kornunga. Tvítug að skipuleggja jarðarför en ekki ársafmæli dóttur þeirra. Ákvörðun unnustans átti eftir myrkva næstu ár í lífi Mariam.

Mariam og dóttir hennar eru meðal viðmælenda 2. þætti af „Viltu í alvöru deyja?" á Stöð 2 í kvöld.

„Ég myndi nú bara vilja kynnast honum,“ segir hin þrettán ára Nadía.

„Við vorum búin að taka hringana af okkur og náttúrlega ömurlegt að skilja við einhvern í reiði. En ég bað þá um að stoppa í stiganum og hljóp með hringinn og setti á fingur hans,“ segir Mariam.

„Má ég ekki eiga hann?“ spyr Nadía.

„Jú, þú mátt eiga hann. Þetta er allt fyrir þig geymt,“ segir Mariam.

Í myndbrotinu sem hér fylgir lýsir Mariam því hvernig hún hleypur að sjúkraliðunum og stöðvar þá til að setja trúlofunarhringinn á unnusta sinn á börunum. 

Tugir Íslendinga svipta sig lífi á hverju ári. Eftir situr her af fólki, ástvinum, sem vita ekki sitt rjúkandi ráð.

Annar þáttur af fjórum í þáttaröðinni „Viltu í alvöru deyja?” er á dagskrá Stöðvar 2 kl. 20:10 í kvöld, sunnudag. Þar er rætt við tvær konur sem stóðu ungar í þeim sporum að barnsfeður þeirra sviptu sig lífi og þær sátu einar eftir með börnin og reiðina og sorgina.

Leikstjórn og handrit er í höndum Lóu Pind Aldísardóttur, myndatökumaður er Ívar Kristján Ívarsson og klippingu annaðist Ólafur Þór Chelbat.

Ef þú ert í sjálfsvígshugleiðingum:

Hringdu í Hjálparsíma Rauða krossins: 1717 - opið allan sólarhringinn

Talaðu við netspjall Rauða krossins á raudikrossinn.is

Eða pantaðu tíma hjá Pieta samtökunum: pieta.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.