Íslenski boltinn

Geir: Ósiðleg afskipti hjá forseta UEFA

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Geir Þorsteinsson, fyrrum formaður KSÍ, er verulega ósáttur við afskipti forseta UEFA af formannskjöri KSÍ. Geir segir að forsetinn hafi brotið siðareglur UEFA með framkomu sinni.

Viðtal íþróttadeildar við Aleksander Ceferin í vikunni þar sem hann mærir Guðna Bergsson, formann KSÍ, í bak og fyrir hefur eðlilega vakið athygli. Þar sagði forsetinn meðal annars að samskipti UEFA og KSÍ hefðu aldrei verið betri og að Guðni væri frábær leiðtogi.

„Þetta getur ekki verið hlutverk forseta UEFA að blanda sér í kosningabaráttu í einu af aðildarsamböndum UEFA á þennan hátt. Þetta eru frekleg afskipti, fordæmalaus af mínu viti og ósiðleg,“ segir Geir hvass.

Hann segir það vera fordæmalaust að forseti UEFA skipti sér af formannskjöri í aðildarlandi UEFA á þennan hátt og honum var brugðið er hann sá viðtalið.

„Ég var mjög hissa og trúði þessu varla. Hélt kannski að þetta væri grín en menn beita valdi sínu óspart greinilega.“

Geir segist ekki vera í nokkrum vafa um að Ceferin hafi brotið siðareglur UEFA með ummælunum sem hann lét falla í vikunni.

„Ég get ekki séð annað. Ef menn geta komið fram með þessum hætti þá er knattspyrnuhreyfingin spillt,“ segir Geir en ofanritaður benti honum þá á að það væru engin ný tíðindi að knattspyrnuhreyfingin væri spillt.

„Menn hafa boðið sig fram til þess að gera betrumbætur á því en þetta er dapur dagur fyrir knattspyrnuna.“


Tengdar fréttir

Forseti UEFA: Guðni Bergsson er frábær leiðtogi

Aleksander Ceferin, forseti UEFA, talar fallega um Guðna Bergsson, formann KSÍ, í samtali við Vísi og segir samstarf KSÍ og UEFA betra núna en það hafi nokkurn tíma verið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×