Lífið

Thelma hefur lést um 75 kíló: „Æskan mín var mjög grimm“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Thelma Ásdísardóttir sagði sögu erfiða sögu sína á sínum tíma.
Thelma Ásdísardóttir sagði sögu erfiða sögu sína á sínum tíma.
Óhugnanlegt kynferðisofbeldi sem Thelma Ásdísardóttir mátti þola í æsku gerði hana að baráttukonu á fullorðinsárunum því hún hefur helgað líf sitt baráttunni gegn ofbeldi.

Thelma varð fyrir kynferðisofbeldi bæði af hendi föður síns og einnig fleiri manna á hans vegum en hún hefur unnið andlega úr þeirri erfiðu reynslu á einstakan hátt.

Og nú er hún búin að létta sig um 75 kíló án megrunarkúra eða aðgerða. Thelma varð landsþekkt þegar hún sagði svo eftirminnilega að í þögninni og skugganum þrífist ofbeldi best og því hafi hún ákveðið að segja sína óhugnanlegu sögu sem rithöfundurinn Gerður Krisný skráði í bókinni Myndin af pabba. Og í dag er Thelma enn einu sinni búin að sýna ótrúlegan viljastyrk og dugnað með því að létta sig um 75 kíló á einu og hálfu ári með breyttum lífsstíl og alveg án megrunarkúra eða aðgerða.

Vala Matt ræddi við Thelmu í Íslandi í dag á Stöð 2 í gærkvöldi.

Thelma tók líf sitt alfarið í gegn þegar kemur að hreyfingu og mataræði.
„Ég gerði nokkra stóra hluti. Undirbjó mig vel andlega og fór vel yfir hvað ég hafði gert áður sem hafði ekki virkað,“ segir Thelma og heldur áfram.

„Ég bjó mér til skref því það að horfa á þetta verkefni í upphafi virtist það svo stórt og því ákvað ég að brjóta það niður. Ég ákvað að ég fengi verðlaun þegar ég næði hverjum áfanga. Ég fékk alltaf skemmtileg verðlaun og ekki neitt matarkyns, heldur eitthvað allt annað.“

Það fyrsta sem Thelma gerði var að skoða vatnsdrykkju sína og auka vel við hana.

„Svo fór ég að skoða hvað ég gæti mögulega gert í hreyfingu. Fyrsti göngutúrinn minn var fjögur hundruð metrar og ég var svakalega ánægð, því það tókst. Síðan fór ég fljótlega að huga að mataræðinu því það er það sem skiptir mestu máli. Ég ákvað að fara borða hreinan mat og tók út eiginlega öll aukaefni.“

Í dag elskar Thelma að fara út í búð og versla föt.
Hún segist hafa fljótlega tekið út öll sætindi.

„Kökur, nammi og ég fór mjög fljótlega að hætta að kaupa skyndibita,“ segir Thelma sem fór einnig að drekka hreint prótein sem hún blandar út í vatn. Með tímanum hafði það góð áhrif á meltinguna og einnig á húðina.

„Síðan fór ég að taka út sykurinn og það var erfiðast. Þá fékk ég hörð líkamleg fráhvarfseinkenni og líkami minn varð bara reiður,“ segir Thelma sem loksins í dag getur keypt sér venjuleg föt.

„Þetta er svo gaman. Núna get ég farið inn í hvaða búð sem er og ég er enn að venjast þessu. Mér finnst ótrúlega gaman að fara í búð og versla mér föt sem passa mér vel. Áður fyrir varð ég bara að kaupa mér föt sem pössuðu á mig og gat lítið valið. Það var ekkert gaman að fara út og kaupa sér föt.“

Æska Thelmu var skelfileg og var hún misnotuð af föður sínum og vinum hans.
Eftir það hræðilega kynferðisofbeldi sem Thelma varð fyrir í æsku ákvað hún að leggja sitt af  mörkum og hjálpa fólki sem hefði orðið fyrir ofbeldi. Thelma stofnaði samtökin Drekaslóð á sínum tíma þar sem hún hjálpar öðrum.

„Ég er enn að vinna með mínar afleiðingar og sé það að ég verð alla ævi að vinna með mig. Ég ætla aldrei að hætta, því það er svo gaman að vaxa og læra eitthvað nýtt. Ég ákvað fyrir þónokkru síðan að mig langaði að vinna við þetta. Bæði vegna þess að þetta heillaði mig og gleðin og krafturinn sem felst í því að það sé hægt að vinna sig út úr þessu. Æskan mín var mjög grimm að mörgu leyti og margt sem ég hef ekki talað um opinberlega sem ég hef þurft að takast á við. Einu sinni hugsaði ég að ég myndi aldrei ná því lífi sem ég vildi en svo þegar ég áttaði mig á því að það er alveg sama hvað maður hefur þurft að glíma við, það er alltaf hægt að snúa sér við.“

Hér að neðan má sjá viðtalið við Thelmu í heild sinni.


Tengdar fréttir

Samfélagið þarf að senda kynferðisbrotamönnum ákveðin skilaboð

„Mér finnst jákvætt hvað dómurinn er þó langur. Það er kannski ekki að maður sé að gleðjast yfir þungri refsingu í fangelsi, mér finnst það svo kannski annað mál, en mér finnst mikilvægt að samfélagið gefi skilaboð til ofbeldismanna að svona sé ekki liðið," segir Thelma Ásdísardóttir Stígamótarkona um dóm yfir manni sem var dæmdur fyrir margvíslegt ofbeldi,

Thelma valin ljósberi ársins

Thelma Ásdísardóttir var útnefnd Ljósberi ársins 2005 á vegum Stígamóta. Í umsögn dómnefndar segir að Thelma er útnefnd ljósberi ársins þar sem hún snart með ógleymanlegum hætti við þjóðarsálinni þegar hún steig fram og kynnti uppvaxtarár sín til að gefa öðrum styrk til að takast á við óhugnað og eyðingu í sjúkum uppeldisaðstæðum.

Thelma útnefnd kona ársins

Thelma Ásdísardóttir, var útnefnd kona ársins af tímaritinu Nýju lífi við hátíðlega athöfn sem fram fór í Iðnó í dag. Þetta er í fimmtánda sinn sem Nýtt líf útnefnir konu ársins á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.