Gagnrýni

Rowling á glæpaslóðum

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar
Bókin er löng, 600 síður, en þar sem Rowling er góður sögumaður þá kemur það ekki að sök.
Bókin er löng, 600 síður, en þar sem Rowling er góður sögumaður þá kemur það ekki að sök.
Metsöluhöfundurinn og skapari Harry Potter, J.K. Rowling, hefur skrifað fjórar sakamálasögur undir dulnefninu Robert Gal­braith og líklegt er að bækurnar verði fleiri. Aðalpersóna bókanna er einkaspæjarinn Cormoran Strike og aðstoðarkona hans, Robin Ellacott. Fyrsta bókin í bókaflokknum, The Cuckoo’s Calling kom út árið 2013 og fékk góða dóma. Nokkrum mánuðum eftir útgáfu upplýstist að Rowling væri höfundurinn og eins og geta má nærri tryggðu þær upplýsingar metsölu. Nú er þessi bók komin út í góðri þýðingu Ugga Jónssonar og nefnist Gauksins gal.

Spæjarinn Strike er einfættur, nýskilinn við glæsilega og ríka unnustu og býr á skrifstofu sinni. Til hans ræðst aðstoðarkona, hin pottþétta og skynsama Robin sem er nýtrúlofuð. Mál kemur á borð Strike, maður vill að hann rannsaki dauða systur sinnar, frægrar fyrirsætu. Talið er að hún hafi fyrirfarið sér en bróðirinn getur ekki fallist á það. Strike tekur að sér málið og hefur ítarlega rannsókn. Í ljós kemur að fjölskyldusaga fyrirsætunnar er í meira lagi skrautleg en hún var ættleidd. Leitinni að morðingja hennar lýkur á óvæntri uppljóstrun.

Bókin er löng, 600 síður, en þar sem Rowling er góður sögumaður þá kemur það ekki að sök. Þeir lesendur sem eru orðnir þreyttir á ofbeldisfullum glæpasögum fá hér einmitt bók sem þeir geta sökkt sér ofan í. Hér er komin glæpasaga sem er skemmtileg aflestrar, sneisafull af litríkum, en ekki alltaf geðfelldum persónum, og auk morðgátu geymir hún fallega sögu um þróun vináttusambands milli aðalpersónanna tveggja. Lesandinn fylgist með þeim verða ástfangnar hvor af annarri en sjálfar gera þær sér ekki grein fyrir því.

Þegar haft er í huga að Rowling er í hópi frægustu kvenna veraldar og er vellauðug þá er forvitnilegt að skoða hversu grimmilega hún gagnrýnir í þessari bók heim hinna forríku sem haga sér eins og dekurbörn og sökkva sér í dópneyslu.

Gauksins gal er glæpasaga af gamla skólanum (í bestu merkingu þess orðs). Það má finna að lengd bókarinnar en um leið er erfitt að sjá fyrir sér að glæpasagnaunnendum muni leiðast lesturinn. Gauksins gal er einfaldlega stórfín glæpasaga. Vonandi rata framhaldsbækurnar einnig til lesenda í íslenskri þýðingu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.