Lífið

Sagði mótleikaranum að hætta að væla yfir því að hafa þurft að vinna á Íslandi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Kit Harrington og Emilia Clarke leika lykilhlutverk í þáttunum
Kit Harrington og Emilia Clarke leika lykilhlutverk í þáttunum Vísir/HBO
Emilia Clarke, sem leikur Daenerys Targaryen í Game of Throns þáttunum sívinsælu sagði Kit Harrington, mótleikara hennar sem leikur Jon Snow, að hætta að væla yfir því að hafa þurft að taka upp atriði fyrir þættina í kuldanum á Íslandi. Aðrir leikarar hafi ekki haft það mikið betra en hann.

Harrington mætti í þáttinn hjá Stephen Colbert í síðasta mánuði þar sem hann kvartaði yfir því að hafa þurft að vera í rigningu og kulda við tökur þáttanna á meðan aðrir leikarar hafi meðal annars fengið að vera í Króatíu við tökur, í töluvert mildara loftslagi.

Sem kunnugt er hafa fjölmörg atriði þáttanna verið tekin upp hér á landi og hefur Harrington verið fastagestur hér á landi, enda gerist margt af því sem hann er að bauka í þáttunum í kuldanum í norðrinu í Game of Thrones-heiminum.

Sjá einnig: Game of Thrones upprifjun - Hvar eru þau og hvað eru þau að gera?

Emilia Clarke var spurð um þetta af Colbert er hún mætti til hans í vikunni. Hún afskrifaði ummæli Harringon sem óttalegt væl. Hún hefði ekkert haft það betra en hann.

„Það er kalt á Íslandi en tökudagarnir eru stuttir vegna þess að það eru bara bjart í fjóra tíma,“ sagði Clarke.

„Ég er hins vegar í námu á Möltu í svona hundrað stiga hita. Það leið yfir mig yfir í hverri þáttaröð vegna þess að ég er með hárkollu ofan á mínu eigin hári,“ sagði Clarke. Vinnudagarnir hjá henni hefðu til að mynda verið töluvert lengri en hjá Harrington.

„En hann er alltaf að kvarta yfir því að hann hafi dregið stutta stráið en hann var byrjaður að drekka klukkan tvö á daginn. Við vorum í námu til klukkan ellefu á kvöldin biðjandi sólina um að setjast,“ sagði Clarke að lokum

Það styttist í að lokaþáttaröð þáttanna hefjist en búist er við að persónur Harrington og Clarke muni leika lykilhlutverk í síðustu þáttaröðinni.

Sjá má viðtölin við Clarke og Harrington hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×